Póstþjónusta

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 16:09:54 (1037)

2001-11-01 16:09:54# 127. lþ. 19.4 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[16:09]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gagnrýndi mjög að þetta frv. væri flutt. Sú ræða bendir einmitt til þess að hann hafi hvorki hlustað á ræðuna sem ég flutti hér áðan --- sem ég þó hvatti hann til að gera --- né lesið frv. vegna þess að hér er verið að tryggja það í löggjöf hvernig Póst- og fjarskiptastofnun skuli hafa fullt og óskorað vald til að setja reglur um póstþjónustuna. Ég tók sérstaklega fram í ræðu minni að niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar væri sú að hún hefði ekki í núgildandi lögum það vald sem hún þyrfti að hafa til þess að setja skýrar reglur um póstþjónustuna og skýrar reglur um starfsemina í hverju pósthúsi.

Ég lít svo á að hv. þm. sé af góðum vilja að hvetja til þess að póstþjónustan verði tryggð. Ég efast ekki um það. En til þess að við getum tryggt þessa þjónustu þarf lagaumhverfið að vera eðlilegt.

Ég gat þess einnig í ræðu minni að það væru viss vandkvæði. Við erum að auka þjónustuna. Við erum að dreifa póstinum alla virka daga. Það kostar fjármuni. Og til þess að reyna að láta Íslandspóst standast þá breytingu þarf hagræðingu. Líka þarf að taka tillit til breyttra aðstæðna í pósthúsum.