Póstþjónusta

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 16:12:08 (1038)

2001-11-01 16:12:08# 127. lþ. 19.4 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[16:12]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það má vel vera að Póst- og fjarskiptastofnun þykist ekki hafa nægilegar lagaheimildir til þess að grípa til aðgerða til að fylgja því eftir að þjónustan sé eins og hún á að vera. Ég tel þó að það hefði ekki átt að hamla því að stofnunin gengi fram og a.m.k. kannaði þær ábendingar og jafnvel kærur sem komu fram vegna þeirrar lélegu póstþjónustu sem íbúar í ákveðnum landshlutum töldu sig eiga við að búa. Hafi Póst- og fjarskiptastofnun ekki talið sig hafa lagaheimild til þess er þó ljóst að Íslandspóstur er að öllu leyti í eigu ríkisins og eina hlutabréfið er í vörslu samgrh. Hæstv. ráðherra hefði þannig verið í lófa lagið að beita eignarhlutavaldi sínu til þess að koma þar til móts við slappt lagaumhverfi sem ég tel reyndar að sé hreint skálkaskjól. En þá átti ríkisvaldið allan Íslandspóst, og á, og gat þá beitt þeim aðgerðum sem eigandinn taldi nauðsynlegar til þess að þjónustan uppfyllti þær væntingar og óskir og kröfur sem eðlilegt og sjálfsagt var að gera, hafi yfirleitt skort lagaheimild til að fylgja því eftir þannig að þetta er nú undansláttur. En gott er að heyra ef þessi nýju lög verða til þess að tryggja að enn betur verði eftir gengið.