Póstþjónusta

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 16:18:02 (1041)

2001-11-01 16:18:02# 127. lþ. 19.4 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[16:18]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég missti að hluta til af ræðu hv. þm. af því að ég var m.a. að ræða við það unga fólk sem er hér á pöllunum. Ungir Sunnlendingar eru í heimsókn í þinginu. En þegar verið er ræða um póstþjónustu er um viðkvæm mál að ræða.

Ég heyrði einungis þann hluta ræðu hv. þm. þar sem hann fjallaði um starfsemi Íslandspósts, ekki frv. í heild. En eftir það litla sem ég heyrði af ræðunni fannst mér eins og hann hefði ekki kynnt sér þetta mál alveg til fullnustu. En það kann að vera misskilningur af minni hálfu.

Við búum á þessum sviðum sem og öðrum í gjörbreyttu umhverfi. Póstþjónusta er viðkvæmt mál. Það er alveg ljóst. En í mjög mörgum tilfellum þar sem Íslandspóstur hefur verið að breyta starfsemi sinni á þessum 25 pósthúsum sem hæstv. samgrh. talaði einmitt um í framsöguræðu sinni, hefur mjög vel tekist til. Ég get tekið sem dæmi Vík í Mýrdal þar sem póstþjónustan er rekin af einstaklingum sem þar eru með fyrirtæki. Þar hefur tekist gríðarlega vel til. Fólk er mjög ánægt með þjónustuna þar. Menn eru líka ánægðir með að landpóstarnir koma fimm daga vikunnar á býsna mörg heimili í dreifbýli. Fólk er líka ákaflega ánægt með það víða í þéttbýli þar sem farið er að bera út sendingar að kvöldlagi. Farið er að bera út ábyrgðarbréf og ýmiss konar sendingar þannig að fólk er ánægt með þá þjónustu.

Ef við erum ekki tilbúin að breyta þjónustu þessa fyrirtækis, þá vildi ég spyrja hv. þm. hvort hann sem fjárlaganefndarmaður sé tilbúinn að greiða úr ríkissjóði 150 millj. til póstþjónustunnar í landinu, verja 150 millj. þannig að við gætum haldið bara gjörsamlega óbreyttu ástandi, þ.e. í einhvern ákveðinn tíma.