Póstþjónusta

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 16:21:24 (1043)

2001-11-01 16:21:24# 127. lþ. 19.4 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[16:21]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. var heiðarlegur í svörum sínum nú. Hann talar um að hann sé í raun tilbúinn til þess að verja 130 millj., sem verður hugsanlega tapið á Íslandspósti á því ári sem nú er að líða. Einhvers staðar verða þeir peningar að koma frá.

Í raun talar hv. þm. á þann veg að hann sé tilbúinn að halda óbreyttri póstþjónustu í landinu og greiða hana bara niður af ríkinu. En þá komum við að ákveðnum þætti sem kemur fram í þessu lagafrv., sem er að áður en langt um líður verður samkeppni í póstþjónustu á Íslandi. Og hvað ætlar hv. þm. að gera þá?

Önnur fullyrðing sem fram kom í ræðu hv. þm. var alls ekki rétt. Hann talaði um að alls staðar á landinu hefðu verið hremmingar í póstþjónustunni fyrir jólin. Það er bara alls ekki rétt. Auðvitað var mjög alvarlegt ástand á höfuðborgarsvæðinu þegar ekki tókst að dreifa pósti og sendingum á þetta svæði. En það var einungis á höfuðborgarsvæðinu sem þetta gerðist. Þetta gerðist ekki úti á landsbyggðinni. Fyrir því hef ég heimildir. Ég hef kynnt mér það hjá forstjóra Íslandspósts að þetta gerðist einungis á höfuðborgarsvæðinu. En það er jafnalvarlegt fyrir það.

Það var annað sem hv. þm. kom inn á í ræðu sinni. Hann talaði um hið alvarlega ástand varðandi miltisbrandinn. Hann sá ekki fyrir sér að fólk gæti unnið við póstþjónustu innan um aðrar vörur og annað slíkt. En þá segi ég að það er auðvitað alveg jafnalvarlegt fyrir þá sem vinna í hinum hefðbundnu pósthúsum og þá sem eru á hinum óhefðbundnu stöðum að vinna í þessu umhverfi þegar jafnsérkennilegt ástand er í póstmálum og er í heiminum í dag.