Girðingarlög

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 17:04:30 (1050)

2001-11-01 17:04:30# 127. lþ. 19.5 fundur 180. mál: #A girðingarlög# (heildarlög) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[17:04]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér er til 1. umr. frv. til girðingarlaga. Varla er hægt að segja að þetta sé hápólitískt mál, ekki hér í þingsölum, en þetta er mjög viðkvæmt mál úti um allar sveitir. Það er mjög viðkvæmt mál milli jarða að girðingar séu eins og þær eiga að vera og girt þar sem þarf að girða, að hreinsaðar séu upp ónotaðar og ónýtar girðingar og það séu mjög skýrar reglur um hver eigi að bera kostnað við að girða.

Ég tel að frv. sé mjög til bóta og reglurnar séu nokkuð skýrar varðandi skilgreiningu og flokkun girðinga, mismunandi girðinga, og hver eigi að greiða og kostnaðarskiptingu þar sem jarðir liggja saman.

Ég vil taka undir orð hv. síðasta þingmanns varðandi 5. gr. að ef ábúendur eða eigendur jarða koma sér ekki saman um kostnaðarskiptinguna, þá sé þeim tilmælum beint til viðkomandi búnaðarsambands að tilnefna fagaðila til að skera úr um ágreining. Ég held að við ættum að athuga það vel í hv. landbn. hvort þetta sé réttur aðili eða hvort við ættum að leita til einhvers annars. Ég er allt að því að hugsa upphátt, mér dettur í hug sýslumaður, það hefur oft komið til kasta sýslumanna að skera úr um ágreining. En ég vil óska eftir því að við fáum leyfi til þess að skoða þetta vel.

Það eru sannarlega mismunandi þarfir fyrir eigendur jarða að setja upp girðingar og með breyttum búskaparháttum hefur það enn frekar breyst. Skógrækt hefur mjög aukist og er gjarnan á jörðum þar sem áður var sauðfjárbúskapur. Ágreiningur um kostnað við uppsetningu eða viðhald girðinga getur einmitt komið upp á milli jarða þar sem ekki er hefðbundinn búskapur, þ.e. þeirra sem eru með sauðfjárbúskap og hinna sem stunda skógrækt. Það eru ekkert síður skógarbændur sem vilja láta girða til þess að hafa ungplöntur í friði fyrir búpeningi. Mér er a.m.k. kunnugt um að komið hafa upp deilur þar sem sauðfjárbændur hafa talið að þeim bæri ekki að leggja út í þennan kostnað og ef skógræktarbændur vilji girða þá geti þeir girt. Það er því nauðsynlegt að hafa reglurnar skýrar og að það sé augljóst hvert hægt er að leita til að ná sáttum í þeim málum þegar ágreiningur kemur upp.

Hvað varðar rafgirðingar, þá er því lýst hérna hvernig þær eiga að vera. Þegar maður sér rafgirðingu getur maður ekki vitað hvort hún sé í lagi nema að snerta hana, hún ber það ekkert með sér, en því miður hef ég fengið upplýsingar um að rafgirðingar hafi ekki alls staðar verið lagðar af mikilli kunnáttu. Þær hafa verið lagðar yfir votlendi og hafa lítið virkað því að þær hafa bara slegið út og ekkert rafmagn á þeim. Þetta þarf auðvitað að vera í lagi og þarf að koma þeim í lag þar sem þær virka ekki. Ég held að engin bót sé að því að hafa þessar girðingar, eins dýrar og þær eru í uppsetningu, ef þær virka síðan ekki.

Annars vil ég fagna þessu frv. og óska eftir því að það verði vel kynnt og við förum vel yfir það, fáum umsagnir og mismunandi sjónarmið, og ég tek undir það með hæstv. ráðherra að mjög æskilegt væri að geta afgreitt það á þessu þingi.