Girðingarlög

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 17:14:07 (1052)

2001-11-01 17:14:07# 127. lþ. 19.5 fundur 180. mál: #A girðingarlög# (heildarlög) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[17:14]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram og þær góðu undirtektir sem málið hefur fengið og vona að landbn. fari yfir frv. aftur og þær litlu breytingar sem gerðar hafa verið frá því að málið var áður flutt.

Hér hefur aðeins verið minnst á það ef til ágreinings kemur. Mér finnst það vera afar skýrt í frv. og vil vekja athygli á því að í 5. gr. segir svo, með leyfi forseta:

,,Neiti sá er samgirðingar er krafinn þátttöku í undirbúningi eða framkvæmd verksins getur sá er girða vill beint tilmælum til viðkomandi búnaðarsambands um að tilnefna fagaðila til að skera úr um ágreining, sbr. ákvæði 7. gr.``

Það er sem sé 7. gr. sem fjallar eingöngu um ágreining sem upp kann að koma, en í 7. gr. segir:

,,Nú verða aðilar ekki ásáttir um hvers konar girðingu skuli reisa, kostnaðarskiptingu eða um aðra framkvæmd verksins og skal þá viðkomandi búnaðarsamband tilnefna einn fagaðila til að skera úr um ágreining og sveitarfélag annan. Liggi girðing á mörkum sveitarfélaga skal hvor aðili tilnefna aðila úr sínu sveitarfélagi til að jafna ágreininginn ásamt oddamanni frá hlutaðeigandi búnaðarsambandi. Liggi girðingin á mörkum stjórnsýsluumdæma tilnefna hlutaðeigandi sýslumenn sinn manninn hver, en stjórn Bændasamtaka Íslands tilnefnir oddamann/menn og skal afl atkvæða ráða úrslitum.``

Mér finnst þetta afar skýrt og ætti að vera góður farvegur fyrir svona mál.

Hér hefur aðeins komið fram efi um að búnaðarsamböndin séu rétti aðilinn. Ég er hissa á því, því að ráðunautar þessa lands eru menntaðir á þeim sviðum og hafa lagt sig fram um að skera úr deilumálum, kunna til girðinga og búfræði, þannig að ég sé ekki annan fagaðila betri eða líklegri til að koma að slíkum málum á því stigi. En auðvitað mun nefndin fara yfir þetta á þann hátt sem henni ber og treysti ég henni fullkomlega til þess.

Ég fagna þessari umræðu og nú hefur það gerst, en því hefur verið haldið fram t.d. um vinstri græna að þeir væru á móti öllum málum (JB: Hvaða vitleysa, hæstv. ráðherra.) og segðu nei við öllu, en hér hefur það gerst sem gleður mitt hjarta að meira að segja vinstri grænir eru glaðir og jákvæðir í þessu máli þannig að hér ber mér að þakka stuðning úr öllum flokkum við þetta ágæta mál og þeirra einnig og sérstaklega enda um að ræða girðingarlög.