Girðingarlög

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 17:19:03 (1054)

2001-11-01 17:19:03# 127. lþ. 19.5 fundur 180. mál: #A girðingarlög# (heildarlög) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[17:19]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum ekki að setja á fót dómstól. Við erum að setja á fót leið til þess að sætta menn og setja niður deilur.

Búnaðarsambandið hefur það áreiðanlega í huga þegar það skipar mann til verksins að hann sé ekki vanhæfur. Þeir munu velja mann út frá því. En svo kann að fara að sættir náist ekki. Ef ég og hv. þm. t.d. ættum í deilum og sú leið væri fyrir hendi að forsetinn, sem nú situr, sætti okkur og reyndi að koma deilunum niður, þá gæti það auðvitað gerst í þeim deilum eins og þessum um girðingarnar að málið gengi áfram til dómstólanna, yrði kærumál til sýslumannsins. Þess vegna er auðvitað sýslumaðurinn ekki sá sem á að koma að þessum málum. Hann er á öðru stigi.

En þetta er sem sé leiðin til þess að reyna að ná mannlegri sætt í mál. Þetta þekkjum við. Fagaðilinn kæmi þá að þessu, búnaðarsambandið, sem þekkir þetta eins og ég rakti. Ég er á því að þetta sé rétta leiðin.

En ég treysti hv. þm. vel til þess að fara yfir þetta faglega í nefndinni og gaumgæfa það betur út frá bæði sínum sjónarmiðum og því sem ég set hér fram. Ég trúi því að nefndin nái saman um þetta atriði sem er afar mikilvægt. Það er mjög gott að eiga sáttaleið í málum því ekkert er erfiðara en þegar fólk deilir út af smámunum, ég tala nú ekki um verði það svo að dómsmáli sem þvælist í kerfinu árum saman og veldur gráum hárum og sársauka á milli vina sem búa hvor á sínum bænum.