Ummæli sjávarútvegsráðherra á aðalfundi LÍÚ

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 10:49:21 (1064)

2001-11-02 10:49:21# 127. lþ. 20.91 fundur 97#B ummæli sjávarútvegsráðherra á aðalfundi LÍÚ# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[10:49]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er auðvitað ótrúlegur hroki sem birtist í málsvörn liðsmanna sjútvrh. hér, hv. þm. Kristjáns Pálssonar og hv. þm. Halldórs Blöndals. Það er ekki virðingunni fyrir að fara gagnvart öðrum viðhorfum í þessum málum. Ég held að hv. þm. hefðu átt að kynna sér hvert er tilefni þessarar umræðu. Það eru ummæli sem höfð eru eftir sjútvrh. í frétt Stöðvar 2 á þá leið að nefndarmenn úr stjórnarandstöðu hafi haft það að markmiði að halda uppi ágreiningi í nefndinni. Hvað er verið að segja með þessu? Það er verið að bera menn mjög þungum sökum, þ.e. að þeir hafi ekki unnið á efnislegum og heiðarlegum forsendum í þessu nefndastarfi. Þeir hafi með öðrum orðum haft annað í huga en að vera talsmenn sinna sjónarmiða og reyna að vinna þeim brautargengi. Þetta eru mjög þungar og alvarlegar ásakanir. Eru þeir hv. þm. Kristján Pálsson og Halldór Blöndal bærilega sáttir við þessar ásakanir? Hafa þeir forsendur til þess að dæma menn, fjarstadda, með þessum hætti? Ekki veit ég til þess að hv. þm. hafi verið í nefndinni.

Varðandi það sem sagt er um fyrningarleiðina og hv. þm. Halldór Blöndal kom inn á áðan í mjög geðprúðu ávarpi til þingsins þá er það auðvitað ósköp einfalt mál. Þeir sem vildu skoða leiðir fyrningar eða afnotasamninga voru fyrst og fremst tilbúnir til að nálgast breytingar á kerfinu með slíkum aðferðum. Víglínan er alveg einföld. Hinum megin eru þeir sem engar breytingar vilja gera og finna þar af leiðandi öllum hugmyndum um eitthvað annað en núverandi kvótakerfi allt til foráttu. Ég held að það blasi við hverjum manni í ljósi hinnar efnislegu niðurstöðu að öflin á bak við meiri hlutann ætluðu sér aldrei að gera neinar breytingar.