Ummæli sjávarútvegsráðherra á aðalfundi LÍÚ, ræðutími o.fl.

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 11:00:07 (1070)

2001-11-02 11:00:07# 127. lþ. 20.94 fundur 100#B ummæli sjávarútvegsráðherra á aðalfundi LÍÚ, ræðutími o.fl.# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[11:00]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég er auðvitað þakklátur fyrir það að hæstv. sjútvrh. hefur hreinsað loftið með því að lesa úr ræðu sinni og staðfesta það sem greinilega kom fram í frétt Stöðvar 2. Hitt finnst mér vera ámælisvert gagnvart forsetum þessa þings hvernig þeir halda uppi fundarstjórn.

Mér finnst það vera stórlega ámælisvert að þegar hæstv. sjútvrh. er beinlínis beðinn um það af þeim sem hér stendur og hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að endurtaka ummæli sín úr ræðunni --- hann hafði til þess fullt tækifæri --- þá gerir hann það þegar ræðutími hans er búinn og hann fær fullt leyfi hjá hæstv. forseta til að tala þrjár mínútur og fimmtán sekúndur fram yfir eðlilegan tíma. Þetta finnst mér ekki eðlilegt.

Mér finnst heldur ekki eðlilegt þegar hv. 1. þm. Norðurl. e., sem að öðru jöfnu gegnir heitinu hæstv. forseti, talar hér sem 1. þm. Norðurl. e. úr ræðustólnum og þverbrýtur þingsköp. Hann tekur hér upp efnislega umræðu sem hæstv. forseti Halldór Blöndal hefur margoft tekið þingmönnum vara fyrir í umræðum af þessu tagi.

Herra forseti. Þegar ég ávítti jafnframt hv. þm. í ræðu minni áðan átti ég einmitt við þetta eintal hans, eða tvítal, samtal hans við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. En ég fyrirgef honum það. Nú hefur komið í ljós, eftir því sem hv. þm. Halldór Blöndal segir, að þetta var bara eintal sálarinnar. Hv. þm. sagði að hann hefði bara verið svo sem að tala við sjálfan sig.

Herra forseti. Hér er um nýbreytni að ræða. Ég held að þingstörfin mundu mjög greiðast ef hv. 1. þm. Norðurl. e. héldi uppteknum hætti þegar hann kemur í þennan stól og talaði ekki við neinn nema sjálfan sig.