Ummæli sjávarútvegsráðherra á aðalfundi LÍÚ, ræðutími o.fl.

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 11:02:41 (1072)

2001-11-02 11:02:41# 127. lþ. 20.94 fundur 100#B ummæli sjávarútvegsráðherra á aðalfundi LÍÚ, ræðutími o.fl.# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[11:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að taka undir það að mér finnast virðulegir forsetar okkar hafa átt betri dag en þennan, bæði sá sem í stólnum situr og eins hv. 1. þm. Norðurl. e., virðulegur forseti Alþingis, sem braut hér í blað með ýmsum hætti í sínu merka ávarpi fyrr á fundinum.

Vandinn við það að sýna það svigrúm í sambandi við ræðutíma sem hæstv. forseti gerði hér áðan er í sjálfu sér ekki að menn geti ekki haft skilning á því að efnið sem viðkomandi aðili hefur fram að færa sé brýnt og eigi erindi inn í umræðuna. En annaðhvort gilda þessar reglur eða ekki og ég sé ekki annað en að forsetar lendi umsvifalaust í grenjandi vandræðum með að ákveða hvar og hvenær eigi þá að sýna svigrúm af þessu tagi ef þeir yfir höfuð leggja út á þá braut þannig að mér leið heldur illa, satt best að segja, undir þessum lestri sjútvrh. sem tók á fjórðu mínútu fram yfir leyfðan ræðutíma. Forseti hefði að mínu mati a.m.k. átt að reyna að hvetja ráðherra til að stytta mál sitt fyrir utan það að þau ummæli sem máli skiptu voru ein málsgrein en hæstv. sjútvrh. valdi að lesa langa rullu í aðdraganda þessarar málsgreinar sem við þurftum að fá staðfest að væri rétt eftir höfð í fréttum fjölmiðla --- og kemur á daginn ... (Gripið fram í: Þetta er rangt. Þetta er rangt.) og kemur á daginn að er nákvæmlega rétt eftir haft, herra forseti, að sjútvrh. sagði að þessir fulltrúar stjórnarandstöðunnar í endurskoðunarnefndinni hefðu haft það að markmiði að halda uppi ágreiningi. Þetta sagði hæstv. sjútvrh. áðan þegar hann las þetta upp.

Herra forseti. Ég ætla svo sem ekki að hafa um þetta fleiri orð en ég held að það segi sig sjálft og dæmi sig sjálft að forsetum tókst ekki mjög hönduglega, hvorki við fundarstjórnina né ræðuhöld.