Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 11:13:47 (1078)

2001-11-02 11:13:47# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[11:13]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Þann 1. september sl. komu til framkvæmda ákvæði laga nr. 1/1999, um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sem breyttu verulega skipan við stjórnun veiða krókabáta. Með þessari lagabreytingu var fallið frá því að takmarka aðgang að krókaveiðileyfum eins og gert hafði verið allt síðan 1990 fyrir báta minni en 6 brúttólestir. Ákvörðun þessi var tekin eftir dóm Hæstaréttar 3. des. 1998 sem komst að þeirri niðurstöðu að ákvæði 5. gr. laga um stjórn fiskveiða væri í andstöðu við jafnréttisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar og þau jafnréttissjónarmið sem gæta þyrfti við takmörkun á atvinnufrelsi samkvæmt 5. gr. 75. gr. Í stað þess að takmarka aðgang að veiðileyfum var lögunum breytt þannig að hverjum krókabáti var gefinn kostur á að velja á milli veiðileyfis með aflahlutdeild í þorski, ýsu, ufsa og steinbít og veiðileyfis með framseljanlegum sóknardögum. Þetta nýja kerfi átti að taka gildi í upphafi fiskveiðiárs 2000/2001 en var frestað um eitt ár og tók gildi þann 1. sept. sl.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að um ofangreinda breytingu voru mjög skiptar skoðanir enda hafði þessi breyting mikil áhrif á veiðar krókabáta, þó einkum þorskaflahámarksbáta sem til þess tíma hafði verið frjálst að stunda veiðar á öðrum fiski en þorski. Í þeirri umræðu var m.a. dregið í efa að dómur Hæstaréttar frá 3. desember 1998 gerði það nauðsynlegt að breyta lögunum gagnvart krókabátunum með þeim hætti sem gert var með lögum nr. 1/1999. Ráðuneytið telur hins vegar að því hefði ekki verið stætt á öðru og vísar í því efni til minnisblaðs fimm lögfræðinga frá 17. maí 2001 sem fylgir niðurstöðu nefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða frá september 2001.

Í meginatriðum er niðurstaða þeirra sú að með dómi Hæstaréttar 3. desember 1998 hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að aðgangstakmarkanir 5. gr. laga um stjórn fiskveiða standist ekki 1. mgr. 65. gr. og 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar og þessi niðurstaða taki jafnt til krókabáta sem og annarra fiskiskipa.

Við umfjöllun um skipan veiða krókabáta verður ekki horft fram hjá þeirri gífurlegu aukningu sem orðið hefur á veiðum krókabáta, einkum þorskaflahámarksbáta, í þeim tegundum sem þeir hafa getað stundað frjálsar veiðar á. Hafa veiðar þeirra á fiskveiðiárinu 1996/1997 til fiskveiðiársins 2000/2001 aukist frá því að vera 4,45% af heildarafla ýsu upp í 25,5% og aukningin í steinbít hefur verið úr 21,96% í 54,1% af steinbítsafla á sama tíma.

Þegar þorskaflahámarkskerfinu var fyrst komið á í upphafi fiskveiðársins 1995/1996 var ekki talin ástæða til að takmarka veiðar þorskaflahámarksbáta í öðrum tegundum en þorski þar sem meira en 80% af afla þeirra væri þorskur. Á síðasta fiskveiðiári veiddu þorskaflahámarksbátar 28.759 lestir af þorski en afli þeirra í öðrum tegundum var þá 23.564 lestir og var uppistaða þess afla ýsa og steinbítur. Frjálsar veiðar eins flokks skipa sem óhjákvæmilega ganga á aflaheimildir annarra skipa ganga ekki til lengdar. Slíkt misrétti ógnar misrétti kerfisins og auk þess er mjög vafasamt að slíkt standist jafnréttiskröfu stjórnarskrárinnar.

Sé vikið að einstökum greinum frv. þá felst í 1. gr. frv. sú breyting að veiðileyfi með þorskaflahámarki eru felld niður í upptalningu 5. gr. um gerð veiðileyfa. Eftir gildistöku laga nr. 1/1999 eru gerðir veiðileyfa aðeins þrjár: Veiðileyfi með aflamarki, veiðileyfi með krókaaflamarki og leyfi til veiða með sóknardögum.

Í 2. gr. er kveðið á um að ákvæði laganna um úthlutun, nýtingu og framsal til hins almenna aflamarks og aflahlutdeildar gildi einnig um krókaaflamark og krókaaflahlutdeild nema öðruvísi sé ákveðið í lögunum. Í lögum um stjórn fiskveiða eru ýmsar reglur um úthlutun, nýtingu og framsal hins almenna aflamarks og aflahlutdeildar. Í reglugerðum um framkvæmd laga um stjórn fiskveiða eru settar frekari reglur sem lúta að þessum þáttum. Þykir rétt að afdráttarlaust verði kveðið á um þetta atriði. Samkvæmt þessu koma sömu reglur til með að gilda um framkvæmd aflaheimildaflutninga og útreikninga aflahámarks, þar með talið undirmálsafla, flutning aflamarks milli ára, tegundartilfærslu útflutningsára hvort sem um er að ræða krókaafkamarksbáta eða almenna aflamarksbáta.

Í 3. gr. segir að ráðherra sé heimilt að ráðstafa 1.000 lestum af ýsu og sama magni af steinbít til krókaaflamarksbáta sem gerðir eru út frá sjávarbyggðum sem verulega eru háðar veiðum þeirra. Enda þótt ljóst sé að með frv. þessu verði hlutur krókaaflamarksbáta bættur verulega þá getur sú staða komið upp að minni byggðarlög geti orðið fyrir þungbærri skerðingu á aflaheimildum við kerfisbreytinguna. Með slíkri heimild til sérstakrar úthlutunar til báta sem gerðir eru út frá slíkum verstöðum yrði unnt að koma til móts við byggðarlög sem mest hafa misst við kerfisbreytinguna. Jafnframt er á sama hátt gert ráð fyrir 300 tonnum af ufsa.

Í 4. gr. frv. segir að heimilt sé að allt að 5% af heildarafla veiðiferðar reiknist ekki til kvóta viðkomandi veiðiskips. Með þessu móti er opnaður ákveðinn möguleiki fyrir veiðiskip til að koma með fisk að landi sem að öðrum kosti hefði verið freistandi að henda í hafið aftur, annaðhvort vegna þess að hann er verðlítill eða vegna þess að skipið hefur ekki haft nægilegt aflamark í viðkomandi tegund. Nú ber áhöfn skips vissulega samkvæmt gildandi lögum að hirða allan fisk sem veiðist en það er ljóst að sú freisting er fyrir hendi að henda slíkum fiski í hafið. Hefur brottkasti mjög verið haldið á lofti í umræðum um fiskveiðistjórn auk þess sem niðurstöður tveggja kannana benda ótvírætt til að slíkt eigi sér stað, þótt deila megi um í hversu miklum mæli það er. Uppistaða andvirðis þess afla sem ekki er reiknað til kvóta rennur til Hafrannsóknastofnunar og hefur útgerð skips og áhöfn því ekki hag af veiðunum, en fá greitt samtals 10 kr. fyrir hvert kíló selds afla sem skiptist jafnt milli útgerðar og áhafnar vegna kostnaðar og vinnu sem felst í að skila aflanum að landi. Til þess að ekki fari milli mála hvert andvirðið er og til að tryggja að útgerðir sem jafnframt eru með fiskvinnslu hafi ekki hag af þessum afla er það skilyrði sett að aflinn verði seldur á opinberum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir.

Óvíst er að hve miklu marki þessi heimild verður nýtt en hún opnar útgerðarmönnum og sjómönnum möguleika sem eiga að geta dregið úr brottkasti sé til þess vilji. Þykir rétt að gera slíka tilraun sem stæði til ársloka 2002 og yrði endurskoðuð í ljósi reynslunnar.

Í 5. gr. felst ekki efnisbreyting heldur er um sameiningu tveggja ákvæða að ræða sem betur þykja fara í einu ákvæði. Sama gildir um fyrri málslið 6. gr. Í síðari málslið greinarinnar er hins vegar lagt til að heimilt verði að skipta á jöfnu á krókaaflamarki og almennu aflamarki. Samkvæmt núgildandi lögum er krókaaflamarksbátum ekki úthlutuð aflahlutdeild í öllum tegundum sem undir aflamarkskerfið eru felldar. Uppistaða aflaheimilda krókaaflamarksbáta er í þorski og með því að heimila slík skipti gætu þeir aflað sér heimilda í þeim tegundum sem þeim væri hentugt að veiða hverju sinni. Fyrir liggur að oft er unnt að stunda slík skipti ef erfitt reynist að afla þeirra veiðiheimilda sem vantar með kaupum. Leiti útgerðir krókabáta eftir skiptum á veiðiheimildum er það vafalaust gert í því skyni að hafa veiðiheimildir sem henta veiðum bátsins. Auknir möguleikar til að afla veiðiheimilda geta þannig skipt verulegu máli til að koma í veg fyrir brottkast.

Í 7. gr. er fjallað um sérstakar ráðstafanir vegna krókaaflamarksbáta. Í 1. mgr. greinarinnar er lagt til að hlutur krókaaflamarksbáta verði aukinn sérstaklega með 1.800 lestum af ýsu, 1.500 lestum af steinbít og 300 lestum af ufsa á fiskveiðiárinu 2001/2002. Eftir að þessu aflamarki hefur verið bætt við áður úthlutað aflamark þeirra verði aflahlutir allra skipa í þessum tegundum endurreiknuð og aflahlutdeild krókaaflamarksbáta aukinn sem viðbótinni nemur á kostnað annarra aflamarksbáta. Leiðir þessi breyting til að hlutur krókaaflamarksbáta í ýsu hækkar um rúmlega 6%, í ufsa um rúmlega 1% og í steinbít um tæp 12%. Er lagt til að þessum sérstöku heimildum verði úthlutað á grundvelli aflareynslu eins árs.

Í 2. mgr. er lagt til að krókaaflamarksbátum verði enn fremur úthlutað aflahlutdeild í keilu, löngu og karfa á fiskveiðiárinu 2001/2002 á grundvelli aflareynslu þriggja ára. Samkvæmt gildandi lögum er gert ráð fyrir að þessum bátum sé aðeins úthlutað aflahlutdeild í þorski, ýsu, ufsa og steinbít en rétt þykir að þeim verði einnig úthlutað aflahlutdeild í keilu, löngu og karfa. Þessir bátar stunda margir línuveiðar og er keila og langa algengur meðafli við þær veiðar, a.m.k. fyrir Suður- og Suðvesturlandi. Á því viðmiðunartímabili sem hér verður lagt til grundvallar úthlutun aflahlutdeildar veiddu krókabátar tæp 9% af heildarafla í löngu, rúm 12% af heildarafla í keilu en tæpt 1% af heildarafla í karfa og fá þeir þann hlut í varanlegri aflahlutdeild í þessum tegundum. Slík ráðstöfun telst eðlileg og ætti að draga úr líkum á brottkasti.

Í 3. mgr. er lagt til að krókaaflamarksbátum verði á fiskveiðiárinu 2001/2002 úthlutað 200 lestum í ýsu og 600 lestum í steinbít, sem skiptist milli þeirra á grundvelli aflareynslu eins árs. Þessar sérstöku heimildir eru bundnar við fiskveiðiárið 2001/2002 og hafa ekki áhrif á aflahlutdeild þeirra. Með þessari sérstöku úthlutun ásamt því sem greinir í 1. mgr. yrði staðan á fiskveiðiárinu 2001/2002 sú að krókaaflamarksbátum yrði úthlutað 4.045 lestum af ýsu og 5.150 lestum af steinbít miðað við slægðan fisk. Í grg. með frv. er sýnt hver afli þeirra hefur verið í þessum tegundum síðan á fiskveiðiárinu 1996/1997.

Í lokamálsgrein 7. gr. er lagt til að þeim 80 bátum sem á síðasta fiskveiðiári höfðu veiðileyfi sem heimilaði þeim veiðar í tiltekinn fjölda sóknardaga með föstu þorskaflahámarki, almennt kallaðir þakbátar, verði gefinn kostur á að velja veiðileyfi með dagatakmörkunum. Þessir bátar eru yfirleitt með mjög óverulega aflareynslu í þorski og nánast enga í öðrum tegundum. Þykir nauðsyn bera til að gefa þessum bátum kost á að velja dagakerfið sem gefur þeim kost á leyfi til að stunda handfæraveiðar í 21 dag á yfirstandandi ári.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni 1. umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.