Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 11:59:07 (1088)

2001-11-02 11:59:07# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[11:59]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hefja mikla efnislega umræðu um þetta í andsvörum. En ég átta mig hins vegar ekki alveg á því sem hv. 3. þm. Vesturl. var að tala um úthlutun, væntanlega úthlutun á þeim viðbótaraflaheimildum sem frv. gerir ráð fyrir varðandi ýsu, ufsa og steinbít. Frv. gerir ráð fyrir að byggt sé á nýrri veiðireynslu til þess að koma til móts við þær útgerðir og þá báta og sjómenn sem eru tiltölulega nýlega farnir að hasla sér völl í þessu kerfi og eru starfandi í kerfinu.

Ef ég skildi hv. þm. rétt, þá var hann að gagnrýna þetta fyrirkomulag og lagði til einhvers konar aðra útfærslu. Eins og ég skildi orð hv. þm. var hann að ræða um að það yrði gert með þeim hætti að dreifa þessu jafnt út á bátana. Ég verð að játa, virðulegi forseti, að ég átta mig ekki alveg á því hvaða hugmyndir þetta voru hjá hv. þm. og vildi gjarnan að hann skýrði þetta betur.

Við verðum auðvitað að átta okkur á því að hér er um gríðarlega mikla hagsmuni að ræða. Það eru einstök svæði sem hafa byggt meira á þessari veiði en önnur og tillögur eins og þær sem mundu fela í sér að hverfa frá grundavallarhugmyndunum í frv., verði sú leið farin að kvótasetja þessar tegundir eins og núgildandi lög hafa í raun og veru leitt af sér, þá er það auðvitað gríðarlega mikilvægt hvernig þeim veiðirétti er dreift og jöfn dreifing sem ekki tekur tillit til aðstæðna á hverjum stað mundi raska í grundvallaratriðum stöðu einstakra byggðarlaga, útgerða og sjómanna sem hafa byggt á þessum veiðiheimildum.