Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 12:10:33 (1095)

2001-11-02 12:10:33# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[12:10]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessir útúrsnúningar hv. þm. eru honum líkir að vísu, en ekki merkilegir. Þessar tillögur Samfylkingar hafa legið fyrir. Þær hafa verið lagðar hér þrisvar fram og þar kemur fram hvernig við teljum að eigi að taka á málum ef upp kemur mikill vandi í sjávarbyggðum.

Auðvitað munu aldrei verða til algjörlega altækar reglur. En tillögur okkar ganga út á það að allur flotinn búi við sams konar fyrirkomulag. Ég held að það hefði farið betur og að menn hefðu sjaldnar staðið hér með frumvörp í höndunum af því tagi sem verið er að afgreiða núna ef þeir hefðu reynt að hafa í heiðri sanngjarnar og jafnar leikreglur í sjávarútveginum en ekki verið að hygla einstökum fyrirtækjum eða byggðarlögum með þeim reglum og á þann hátt sem við þekkjum úr fortíðinni.

Hv. þm. hefur t.d. staðið að reglum sem voru þannig að menn fengu 25% viðbót ofan á veiðiheimildirnar ef þeir keyptu þær í Eyjafjörð, en ekki ef þeir hefðu keypt þær til Akraness. Hv. þm. hefur staðið að því að búa til reglur á Alþingi sem hafa gengið út á það að skipstjórar fengju úthlutað veiðiheimildum ef þeir hafa átt heima á réttum stöðum á landinu.

Hv. þm. hefur staðið að ótal reglum þar sem með sértækum hætti hefur þessum verðmætu réttindum verið komið í hendur á þeim sem útvaldir eru. Þetta eru afrekin sem hv. þm. hefur staðið að allan tímann og hefur stutt með ráðum og dáð. Hann hefur verið í ríkisstjórn nánast allan tímann eða stutt ríkisstjórnina allan tímann sem þetta fyrirkomulag hefur verið í gildi. Ég geri ráð fyrir því að hann ætli að samþykkja þetta frv. hérna núna líka. Það hefur a.m.k. farið fram hjá mér ef hv. þm. hefur látið sig vanta í eitt einasta skipti til að skrifa upp á stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum.