Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 12:44:46 (1103)

2001-11-02 12:44:46# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[12:44]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi margsinnis komið fram hér að það er enginn misskilningur um að kvótasetning hefur átt sér stað. Við vitum það öll sem hér erum við umræðuna. Ég er bara að draga það fram að ef hv. þm. vill breytingar á kerfinu þá eiga þær sér náttúrlega ekki stað með því að samþykkja núverandi kerfi og breytingar og lagabreytingar sem gerðar eru á grunni þess kerfis sem er verið að festa í sessi. Það er mjög slæm niðurstaða og slæm staða fyrir þingið.

Það kom fram hér áðan hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að stjórnarliðar margir hverjir úttala sig mjög sterkt um að þeir vilji breytingar, að þeir vilji breytingar í þeim anda sem stjórnarandstaðan hefur lagt til.

Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann telji ekki að það sé erfitt viðureignar að knýja fram breytingar ef flokksaginn er það sterkur innan beggja stjórnarflokkanna að menn geti fengið leyfi til þess að segja hvað þeir séu ósammála kerfinu eins og það er, en greiða síðan atkvæði með því að festa það í sessi hvað eftir annað.