Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 14:26:02 (1117)

2001-11-02 14:26:02# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[14:26]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fór yfir það eins og ég gat og benti á að það gætu verið óteljandi ástæður. Það gæti verið hvernig við umgöngumst hafið, hvaða veiðarfæri við notum, hvenær við veiðum o.s.frv. Ég nefndi enga sérstaka ástæðu en ég krafði menn um það að við yrðum öll að reyna að velta því fyrir okkur.

Menn geta spurt um hinar líffræðilegu forsendur. Ég veit að ástand hafsins í kringum Ísland hefur verið mjög gott núna lengi, mjög gott. Það ber öllum saman um það. Hitastigið er mjög hátt, mikið fæðuframboð er í hafinu o.s.frv., þannig að hin blákalda staðreynd að við ætluðum okkur að byggja upp fiskstofnana og við ætluðum að stunda veiðar þannig að þróunin væri sjálfbær hefur mistekist. Ég bara bendi á þetta.

Ég er ekki að gera lítið úr þeirri umræðu sem átt hefur sér stað á annan áratug um réttlætið, hvað væri réttlæti gagnvart eignaheimildum eða hver hefur auðgast og hver hefur tapað. Ég er ekki að gera lítið úr því á nokkurn einasta hátt. En ég er að segja og ítreka það enn og aftur að aðalatriðið er að okkur hefur ekki tekist það sem við ætluðum okkur að gera og ég er að krefja sjálfan mig og aðra, herra forseti, um að við horfumst í augu við þann þátt og allar ástæður geta legið þar til grundvallar. Ég hef ekki kveðið neitt upp úr um það að ég teldi að það væri vegna einhvers ákveðins hluta. En það er ljóst að við höfum ekki náð árangri og ég teldi það aðalatriðið, þess vegna sé það ekki eitt heldur allt sem við verðum að endurskoða.