Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 14:50:41 (1121)

2001-11-02 14:50:41# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[14:50]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Frv. sem hér liggur fyrir er niðurstaða af áralöngu streði og ströggli. Við vitum að um þessi mál hefur ríkt mjög mikið ósætti og í mörgum tilvikum hafa þær línur ekki legið eftir flokkspólitískum mörkum heldur öðrum línum, svo sem eins og byggðarlögum og ýmsu öðru sem hefur skipt mönnum í fylkingar.

Hvað sem hver segir um þetta mál þá á það sér býsna langan aðdraganda. Á árunum 1995 og 1996 varð þetta fiskveiðistjórnarkerfi til í meginatriðum. Það urðu hins vegar þáttaskil, eins og menn muna, með hinum fræga Valdimarsdómi í árslok 1998. Niðurstaðan varð sú löggjöf sem tók gildi í ársbyrjun 1999 og byggðist klárlega á tiltekinni túlkun sem menn vefengdu ekki.

Seinna hafa komið fram upplýsingar sem ég hef skrifað upp á fyrir mína parta. Ég er enginn sérfræðingur í lagatúlkun en hef auðvitað leyfi til þess, sem hver annar leikmaður, þátttakandi í þessari umræðu og fulltrúi á löggjafarsamkomunni, að hafa á þessu ákveðnar skoðanir og fyrir mína parta hef ég látið sannfærast um að hægt sé að túlka dóm Hæstaréttar frá 3. desember 1998 eins og gert hefur verið í margívitnuðu áliti tveggja háskólakennara sem hafa lýst því yfir að kvótakerfið sé að vísu einn þeirra kosta sem koma til greina en ekki sá eini. Niðurstaða þeirra virðist því að kvótakerfið, gagnstætt því sem sem haldið var fram, brjóti ekkert í bága við stjórnarskrána en hins vegar sé það ekki eina leiðin til að tryggja ákveðin atvinnuréttindi þeirra sem stunda fiskveiðar við Íslandsstrendur. Við gerum okkur auðvitað öll grein fyrir því að eitt af stóru viðfangsefnunum okkar er að tryggja hér ákveðin atvinnuréttindi, tryggja að sjómenn og útvegsmenn sem hafa haft framfæri sitt af þessari atvinnugrein hafi ákveðið starfsöryggi.

Deilan sem hefur síðan staðið um þetta mál, svo að ég snúi mér þá sérstaklega að smábátamálinu, hefur verið deila um nákvæmlega hvernig ætti að skilgreina þessi atvinnurétti annars vegar og svo hins vegar hvernig ætti að úthluta þessum atvinnurétti. Ætti að gera það á grundvelli magntakmarkana, einstaklingsbundinna magntakmarkana sem við höfum síðan kallað aflahlutdeildarkerfi eða kvótakerfi. Ætti að gera það með einhverju þaki í einni tegund og síðan frelsi í öðrum tegundum eða ætti að gera það með öðrum hætti eins, t.d. með úthlutun sóknareininga? Um þetta hefur deilan um smábátamálið í raun og veru staðið. Hún hefur auðvitað orðið miklu hatrammari vegna þess einfaldlega að hér er um að ræða ákaflega mikilvæga atvinnugrein fyrir byggðir sem hafa staðið höllum og þess vegna höfum við mjög mörg gengið mjög harkalega fram í því að verja þetta kerfi sem okkur hefur sýnst að hafi dugað býsna vel fyrir þessar minnstu byggðir. Þær hafa á margan hátt verið að bæta upp þessar skerðingar sem við höfum upplifað í gegnum kvótakerfið, ekki bara vegna þess að heildaraflinn hafi dregist saman, sem er auðvitað stóra málið eins og hv. 5. þm. Vestf. benti réttilega á, heldur líka vegna þess að ýmsar byggðir hafa orðið undir í baráttunni innan kvótakerfisins af ástæðum sem hægt væri að fjölyrða um. Þess vegna hefur verið skjól í þessu smábátakerfi. Við sem höfum viljað hafa þetta skjól til staðar höfum þess vegna reynt okkar ýtrasta til að berjast fyrir tilveru kerfins.

Á vissan hátt má segja að einn naglinn hafi verið rekinn í líkkistu þessa kerfis, ef við getum sagt sem svo, á árinu 1999, þessa óbreytta kerfis. Segja má að þá hafi orðið þáttaskil í umræðunni með hinu fræga áliti háskólakennaranna sem ég nefndi áðan. Ég er samt sem áður þeirrar skoðunar að undirliggjandi í gagnrýni á smábátakerfið sé út af fyrir sig ekki vegna stjórnarskrárinnar. Í hugum þeirra sem harðast fara fram í gagnrýninni, bæði sjómanna og útvegsmanna sem hafa ýmislegt haft út á þetta að setja, þá tel ég þær ekki stjórnarskrárlegar athugasemdir heldur miklu frekar hagsmunatengdar. Það sem menn hafa bent á í þessu sambandi, það sem málið hefur snúist svo mikið um í umræðunni eins og við höfum tekið eftir og við verðum vitni að á fundum um þessi mál er auðvitað að menn hafa einfaldlega sagt: Það er ekki réttlæti í því að bátar á aflamarki fái yfir sig skerðingu, t.d. í ýsu. Auðvitað hefur ýsan verið kjarni málsins vegna þess að hún er veigamesti þátturinn í aukategundum í þorskaflahámarkskerfinu. Steinbíturinn er auðvitað mjög stór hluti en verðmætið er meira ýsumegin og þrýstingurinn hefur verið minni steinbítsmegin. Menn hafa sagt sem svo: Við höfum tekið á okkur skerðingu í ýsu á meðan aukið hefur verið við þorskaflahámarkskerfið. Það er þetta sem gagnrýnin hefur snúist um, a.m.k. eins og hún hefur blasað við mér.

Ég er þeirrar skoðunar að auðveldlega sé hægt að stjórna hámarksveiði í einstakar tegundir án þess að magnbinda eða kvótabinda við bát eða hverja útgerð. Ég tel að til séu aðrar leiðir í þessu sambandi. Ég hef af þeim sökum lengi verið talsmaður þess að fara einhverjar sóknartakmarkandi leiðir og svo ég geri litla játningu þá er ég þeirrar skoðunar að hefðu menn tekið upp sóknartakmörkun á ýsu og steinbít fyrr á þessu tímabili þá stæðum við líklega ekki í þessum sporum í dag. Ég tel það einfaldlega vegna þess að þá hefði veiðin í þessum tveimur tegundum trúlegast orðið minni og þrýstingurinn frá þeim sem hafa gagnrýnt kerfið út frá sínum eigin hagsmunum orðið sem því nemur minni.

Ég tók eftir því að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði í ræðu á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda sem ég sá á interseafood.com, ég held að ég fari ekki rangt með það, en það var eitthvað á þá leið að það væri ekkert óeðlilegt að setja þessi mörk við 7--8 þús. tonn af ýsu og stjórna síðan með sóknartakmörkunum.

Ef við skoðum það frv. sem hér lítur dagsins ljós hjá hæstv. sjútvrh. og þekkjum þann bakgrunn sem frv. styðst við, þá vitum við að í raun eru menn kannski ekki að takast á um verkefni eins og að ákveða heildarúthlutun ýsuafla til þessa bátaflokks. Mér sýnist að í þeim efnum sé að verða bitamunur en ekki fjár. Mér virðist fremur ágreiningur um hvernig eigi að stjórna þessum veiðum. Þetta sýnist mér ef ég reyni að skoða þessi mál tiltölulega hlutlægt eins og ég hef verið að reyna að gera.

Stóra málið sem við höfum staðið frammi fyrir til þessa er, þegar sá veruleiki blasti við okkur að ekki var hægt að verja óbreytt kerfi smábátanna --- mér fannst við standa frammi fyrir því strax á þessu sumri og þá hlutum við að spyrja: Með hvaða hætti getum við aukið veiðirétt smábátanna frá því sem gildandi lög sem tóku gildi 1. september sl. gera ráð fyrir? Í raun er niðurstaðan í þessu frv. sú að auka veiðirétt smábátanna, fara þá leið sem þar er kveðið á um.

Mér finnst rangt, sem var haldið fram við umræðuna fyrr í dag, að með þessu væri verið að búa til einhver ný verðmæti fyrir þennan bátaflokk. Auðvitað er það þannig þegar aðgangurinn að auðlindinni er takmarkaður að sóknarrétturinn er verðmæti í sjálfu sér. Það að þorskaflahámarksbátar gátu sótt óheft innan sinna marka í ýsu og steinbít og ufsa og aðrar tegundir var auðvitað viss réttur. Við sjáum það og þessi réttur var skilyrtur því að menn yrðu að úrelda rúmmetra ef þeir voru að kaupa nýja báta eða koma bátum inn í þetta kerfi. Þetta hafði verð. Úreldingin hafði verð. Hinn frjálsi veiðiréttur fékk verð. Verð þorskaflahámarksbáts með kvóta í þorski var líka ákveðið vegna þess að það var frjáls aðgangur í aðrar tegundir. Núna þegar þessi ákvörðun var tekin og lögin gengu í gildi 1. september þá varð verðfall á þessum hluta veiðiréttarins. Það er eitt af því sem er vandamál hjá þeim sem eru nýir í greininni. Þeir hafa borgað fyrir veiðiréttinn, réttinn að ,,frjálsa aðganginum`` og þess vegna eru margir þeirra núna í vanda staddir. Þeir hafa fjárhagslegar skuldbindingar vegna frjálsa veiðiréttarins sem búið er að afnema en hafa hins vegar mjög takmarkaðan aðgang eða aðgengi í veiði í ýsu, steinbít, ufsa og öllum þessum tegundum. Þetta er á vissan hátt kjarni málsins. Þess vegna finnst mér ekki alveg sanngjarnt þegar menn tala um það eins og verið sé að færa mönnum mikil verðmæti þegar verið er að búa til veiðirétt fyrir þá með þessum hætti.

[15:00]

Þess vegna finnst mér ekki alveg sanngjarnt þegar menn eru að tala um það eins og verið sé að færa mönnum svona mikil verðmæti þegar verið er að búa til veiðirétt til þeirra með þessum hætti.

Ég hitti trillukarl um daginn, góðan vin minn, sem var einmitt að segja mér frá því --- hann var í aflamarkskerfi á sínum tíma og hafði veitt um 100 tonn á ári á viðmiðunarárunum --- að hann hefði verið svo ,,óheppinn`` að hafa heimildir til veiði á rækju og hefði þess vegna verið skertur í þorski. Síðan segist hann sitja undir uppnefni um það að hann hafi fengið gjafakvóta þó að kvótinn hans í þorskinum hafi verið 20 tonn eftir að hafa veitt 100 tonn á ári árin á undan. Auðvitað eiga menn erfitt með að skilja þetta, að menn séu nánast eins og ölmusumenn og hafi þegið gjafir þegar þeir eru í þessari stöðu.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson benti réttilega á það hvernig við höfum ár frá ári verið að auka veiðirétt smábátanna. Hann sagði sem ég vissi ekki um að hefðu lögin frá 1990 gilt, lögin sem Alþýðubandalagið, Alþýðuflokkurinn og Framsfl. fengu samþykkt á þeim tíma, væri veiðiréttur þessara báta, og ég vefengi hann ekkert um það, 1.500 tonn. Og það er alveg rétt sem hv. þm. sagði --- ef þetta hefði gengið eftir værum við auðvitað ekki með neinn smábátaflota, hann væri búinn. En okkur hefur tekist að auka veiðiréttinn með ýmsum aðgerðum, og við skulum ekki gleyma því að þetta hefur ekki alltaf verið svona, það hefur ekki alltaf verið þorskaflahámark. Við höfðum hérna um tíma banndagakerfi og ýmislegt annað sem var ekkert sérstaklega vinsælt, og þegar við bjuggum til þetta kerfi á árunum 1995 og 1996 voru menn komnir í það öngstræti með banndagana, sem á vissan hátt voru þó framfarir frá því sem áður hafði verið, að menn töldu að þeir gætu hvorki lifað né dáið í þessu kerfi.

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að snúa mér aftur að þessu frv. Ég sagði áðan að það væri niðurstaða af margra ára streði og ströggli og auðvitað er það svo að þetta er niðurstaða. Þetta er engin óskaniðurstaða, hvorki mín né mjög margra annarra, en þetta er niðurstaða og kosturinn við hana --- og það er auðvitað það sem gerir það að verkum að ég og fleiri sem höfum haft efasemdir um þessa leið styðjum hana --- er að verið er að auka veiðirétt smábátanna, þessa mikilvæga bátaflokks sem er svo mikilvægur fyrir margar af þeim byggðum okkar sem eiga ekki í önnur hús að venda.

Ég vakti aðeins athygli á því í morgun í örstuttu andsvari að stóra málið þegar svo væri komið væri auðvitað að finna viðmiðunartímabilið og þetta er auðvitað býsna erfitt mál. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur sem ætlum að reyna að vinna að gerð þessara laga, bæði stjórn og stjórnarandstöðu, að velta þessu máli vel fyrir okkur vegna þess að við verðum auðvitað að hafa klárt hvert markmiðið er.

Markmiðið, að mínu mati, með þessu frv. er ekki síst það að reyna að verja atvinnuréttindi þeirra sem eru að stunda atvinnugreinina um þessar mundir. Þess vegna varð niðurstaðan sú að hafa viðmiðunina tiltölulega nýja í ljósi þess að við vildum þá tryggja það að viðbótarveiðirétturinn, sem er að koma með ýmsum hætti inn í þessa grein, væri örugglega í höndunum á þeim sem eru að veiða á þessum tíma. Við þurfum auðvitað að velta fyrir okkur ýmsu í þessum efnum, og ég vil varpa upp ýmsum álitamálum. Í fyrsta lagi: Á þessi dagsetning að vera eins og hún er í frv., á að miða við allt síðasta fiskveiðiár? Með því móti er auðvitað ljóst mál að verið væri að koma lengra til móts við þá sem eru með nýjustu reynsluna, þau byggðarlög sem eru kannski viðkvæmust af þeim ástæðum. Aðrir hafa bent á að það sé ekkert óeðlilegt að miða við að menn geti valið annað tveggja fiskveiðiára en þá þurfa menn auðvitað líka að ganga úr skugga um að það leiði ekki til þess að við séum að færa fiskveiðirétt til þeirra sem hafa horfið út úr greininni því það er ekki markmiðið. Markmiðið er að tryggja atvinnuréttindi þeirra sem starfa í atvinnugreininni, réttinn til þess að veiða. Sama á við um útreikninga á hlutdeild smábáta þegar um aukningu á ýsuafla verður að ræða.

Annað álitamál sem ég vil fitja upp á í þessum efnum er ákvæðið um að menn geti býttað á milli kerfa, stóra kerfisins og litla kerfisins svo ég tali bara mál sem a.m.k. við innvígðir skiljum ágætlega. Þetta er auðvitað heilmikið álitamál. Það er engin spurning um það að á vissum svæðum, t.d. á norðanverðu landinu, getur þetta gefið ýmis færi fyrir smábátakerfið, t.d. að verða sér úti um ýsukvóta í staðinn fyrir þorskkvóta. Þetta getur hins vegar haft í för með sér ýmsar hættur sem maður er þegar farinn að heyra af, að braskarar í þessari grein séu að reyna að velta fyrir sér --- og ég tel sjálfsagt mál að nefndin fari mjög rækilega yfir það hvort hafa eigi þessa heimild meira takmarkandi, hvort gera eigi tilraun til eins árs, og takmarka hana við kannski eina eða tvær tegundir gagnstætt því sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Þetta er atriði sem ég vil aðeins að við veltum fyrir okkur vegna þess að við viljum --- og það er að mínu mati grundvallaratriði varðandi þetta mál og lykilatriði varðandi þennan þátt fiskveiðistjórnarinnar --- verja kerfi smábáta sem ekki geti sameinast kerfi stærri bátanna. Það er grundvallaratriði. Ég held að þrátt fyrir að menn deili um mjög marga hluti í sambandi við þessa fiskveiðistjórn sé meiri sátt um þetta markmið í sjálfu sér en ýmislegt annað. Ég vona að menn geti tekið undir það með mér.

Að lokum vil ég segja að við þurfum auðvitað líka að skoða með hvaða hætti við tökum á rétti þessara báta til þess að veiða aðrar tegundir en hefðbundnar innan smábátakerfisins. Það er ýmislegt sem kemur þar til álita, og síðast en ekki síst vaknar spurningin um það hvernig við ætlum að taka á vanda dagabátanna. Hæstv. sjútvrh. hefur lýst vilja sínum til þess að nálgast það mál og ég held að óhjákvæmilegt sé að við ræðum það. Þetta er auðvitað vandi í því kerfi og við verðum auðvitað að reyna að nálgast það þó að ég geri mér líka grein fyrir því að seinna í vetur eigum við eftir að taka á ýmsum öðrum þáttum smábátamálsins sem verður væntanlega ekki tóm til þess að ná utan um í þessu viðfangi núna, svo sem eins og spurninguna um stærðartakmörkin í þessu kerfi en sú spurning er að mínu mati mjög mikilvæg í þessu sambandi.

Virðulegi forseti. Kosturinn við þetta frv. hér er auðvitað sá að það afstýrir því frjálsa tekjufalli sem byggðirnar, einstakar útgerðir, sjómenn og útvegsmenn hefðu annars orðið fyrir. Það er alveg ljóst mál að fjölmargar útgerðir munu einfaldlega ekki lifa af árið, eða veturinn skulum við segja, af þeirri einföldu ástæðu að þær hafa svo lítinn veiðirétt við þær aðstæður sem núna eru við gildandi lög. Með þessu frv. er þó a.m.k. verið að reyna að koma til móts við vanda þessara báta. Ég vil líka í þessu sambandi vekja athygli á t.d. Vestfirðingum sérstaklega --- þeir hafa auðvitað veitt mjög mikið af þessum aukategundum, ýsu og steinbít, og verði niðurstaðan af þessari löggjöf, sem ég vonast svo sannarlega til, sú að við reynum að komast sem næst núinu, raunveruleikanum, í úthlutuninni þannig að við tökum sem mest tillit til þeirra sem eru að störfum í dag getum við sagt að hlutdeild Vestfirðinga í bæði ýsu- og steinbítsveiðinni hjá smábátunum verði mjög líklega um og yfir 50%. Og auðvitað getum við sagt sem svo, og það er rétt, að með þessu skapist ákveðið forskot sem þessir bátar eiga auðvitað að geta haft vegna þess að þeir hafa þarna sem betur fer meiri veiðirétt sem helgast eingöngu af því að þeir hafa verið að stunda þessar veiðar í þessu kerfi. Það er ekki verið að færa þeim neinar gjafir. Það er einfaldlega verið að tryggja að þeir hafi möguleika í átt til þeirrar tekjuöflunar sem þeir hafa haft í þessari ,,frjálsu`` veiði sem þeir hafa verið að stunda vegna þess að auðvitað hafa þeir líka verið takmarkaðir, bæði af stærðartakmörkunum og veiðarfæratakmörkunum.

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig hægt að fara almennum orðum um fiskveiðistjórnarmálin og fiskveiðiráðgjöfina eins og hér hefur verið gert í dag, á margan hátt prýðilega. Ég ætla hins vegar að spara mér þá umræðu. Ég kaus að reyna að fjalla fyrst og fremst um þetta afmarkaða viðfangsefni sem smábátalöggjöfin er. Ég hef sjálfur talið að hún snerist um gríðarlega mikla hagsmuni, og er algjörlega sammála því að allt þetta tal um gjafakvóta og eignarhald er aukaatriði í samanburði við þau réttindi byggðanna sem við verðum að reyna að verja.