Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 15:10:52 (1122)

2001-11-02 15:10:52# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[15:10]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vék fyrr í dag að því atriði að Alþingi hefði á vordögum 1999 samþykkt að eigi skyldi verða meiri skerðing á tekjumöguleikum manna, t.d. í dagakerfinu, en 10%. Nú vil ég spyrja hv. 1. þm. Vestf. hvort hann líti ekki svo til að þegar menn voru að breyta þessu úr 25% tekjusamdrætti í aðeins 10% á milli ára hafi þeir í raun og veru verið að gera það upp við sig á hv. Alþingi að skarpara tekjufall heldur en það væri mönnum ekki bjóðandi í þessari veiðiútfærslu. Þarna var að vísu eingöngu átt við dagakerfið en ég hygg þó að þau sjónarmið hafi verið ríkjandi að það væri óverjandi að láta menn standa frammi fyrir skarpari samdrætti en 10% á milli ára. Ég hygg að í mörgu sem við getum vitnað til í orðum hæstv. sjútvrh. á undanförnum missirum megi líka finna að hann hafi margoft sagt að ekki ætti að breyta kerfinu svo hratt að menn biðu af því það mikinn skaða að þeir lifðu ekki af í kerfinu. Þá er kannski verið að tala um hið almenna kerfi frekar en smábátakerfið. En við hljótum samt að líta til jafnréttissjónarmiða þegar við erum að tala um þetta.

Svo vil ég staðfesta að ég sagði hjá Landssambandi smábátaeigenda, eins og hv. þm. vitnaði til, að ég teldi að miðað við 7--8 þús. tonna heimildir í ýsu væri enginn vandi að útfæra sóknartakmarkanir inn í það kerfi smábátanna sem mundi stýra aflanum inn á það hámark, og ég vil spyrja hv. 1. þm. Vestf. hvort hann sé ekki sammála mér um að það væri hægt.