Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 15:15:19 (1124)

2001-11-02 15:15:19# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[15:15]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svörin. Aðeins varðandi það sem hv. þm. vék hér að í ræðu sinni um viðmiðunartímabilið. Ég held, svo maður leggi nú gott til mála stundum, að menn eigi, ef þessi leið verður farin, að bjóða mönnum upp á það að velja annað árið af tveimur næst sér, þ.e. heila fiskveiðiárið, annaðhvort síðasta fiskveiðiár eða fiskveiðiárið þar á undan. Ég held að þá sé komist næst því að mæta sjónarmiðum manna, bæði vegna þess að þeir hafi þá verið að kaupa sig inn í greinina og eins hitt að aflabrögðin hafa verið að breytast, t.d. fyrir Norðurlandi. Það er staðreynd að ýsan hefur verið að ganga austur um Norðurland og þeir menn sem þar hafa verið að veiðum eiga litla viðmiðun og mundu kannski ekkert fá hana út úr þeirri viðmiðun sem sett er upp í frv. Þess vegna held ég að bjóða ætti mönnum upp á það að velja annað árið til viðmiðunar af tveimur síðustu og þá er það undir hverjum og einum komið ef slíkt kemur upp til umræðu.

Varðandi það sem þingmaðurinn vék að áðan í svarinu, þá er það auðvitað rétt, og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson vék einnig að því í dag, að nýting okkar á botnfiskstofnunum er hörmung. Við vorum að nýta botnfiskstofnana í 50 ár með 637 þús. tonna afla að meðaltali, í hálfa öld, og í þeirri samlagningu er ég eingöngu með þorsk, ufsa, karfa, steinbít, grálúðu og skarkola. Núna vantar 296 þús. tonn upp á að við séum að veiða sama magn úr sömu stofnum.