Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 15:22:12 (1127)

2001-11-02 15:22:12# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[15:22]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var einfalt frv. sem var til afgreiðslu í vor, gekk út á það að fresta því að lögin gengju í gildi. Í sjálfu sér var ekkert flókið að taka afstöðu til þess, það var bara spurning um viljann, hvort menn vildu fresta þessu áfram eða ekki.

Mig langar til að spyrja um eitt og það er þetta: Þegar hv. þm. var að gera því skóna áðan að vestfirskir smábátar fengju helminginn af þeim veiðirétti, ef ég hef skilið hann rétt, sem yrði á smábátunum eftir þessa lagabreytingu, var hann þá að gera ráð fyrir því að viðbótin sem hæstv. sjútvrh. á að úthluta komi líka til Vestfjarða á næstunni?

Ég vil síðan endurtaka að ég tel fulla ástæðu til að fara vandlega yfir þessa hluti og skoða hvernig veiðar smábáta hafa verið á undanförnum þrem til fjórum árum, sérstaklega síðustu þrem árum, vegna þess að þegar teknar hafa verið ákvarðanir um að veita mönnum veiðiréttindi þá hefur yfirleitt verið miðað við þrjú ár og menn hafa geta valið tvö af þessum þremur árum. Það hefur kannski verið sú regla sem helst hefur verið hægt að kalla reglu þegar menn hafa verið að velja slíka niðurstöðu. Ég spyr hv. þm. hvort hann telji ekki að ástæða sé til að fara yfir gögn hvað varðar veiðar báta um allt land í þessum flokki til að átta sig á því hvernig veiðisveiflurnar hafa komið út á sl. árum og hvort full sanngirni sé fólgin í því að hafa einungis viðmiðun á einu ári, hvaða ár sem það svo sem yrði.