Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 15:24:19 (1128)

2001-11-02 15:24:19# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[15:24]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get svarað hv. þm. því strax að auðvitað hef ég enga hugmynd um með hvaða hætti viðbótarpottar til byggðanna, jöfnunarpottarnir, muni dreifast milli landshluta. Það á allt saman eftir að skoðast og ég hef á þessum tíma engar forsendur til þess að velta því neitt fyrir mér í rauninni.

Það sem ég var eingöngu að vísa til var að ég var að vekja athygli á því að samkvæmt þeim upplýsingum og þeim tölum sem ég hef um veiðireynslu eða veiði á ýsu og steinbít hjá smábátum á því tímabili sem gert er ráð fyrir að sé viðmiðunartímabilið samkvæmt frv. þá er það þannig að veiðireynsla Vestfirðinga þessara tegunda í smábátakerfinu er um og yfir 50%, og ég var að vísa til þess.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að lengja eigi þennan viðmiðunartíma mjög mikið. Ég velti fyrir mér þessum tveimur spurningum, hvort hafa ætti viðmiðunartímann eitt fiskveiðiár eða tvö fiskveiðiár og leyfa mönnum að velja annað af þeim. Ég tel að ekki komi til greina að hafa þetta lengra vegna þess einfaldlega að eitt meginmarkmiðið með frv. er að koma til móts við þá sem stunda veiðarnar núna og ekki síst þá sem hafa stystu reynsluna, og það eru ýmis byggðarlög sem bókstaflega lifa og deyja með því að við reynum að tryggja að veiðiréttinum sé úthlutað á grundvelli slíkra prinsippa.

Síðan er annað sem við skulum ekki gleyma og það er auðvitað sú staðreynd að í ýmsum kaupsamningum, eins og ég veit að hv. þm. veit jafn vel og ég, er kveðið á um það bókstaflega að komi til nýs veiðiréttar eigi sá veiðiréttur sem hafi skapast á tilteknu tímabili að lenda í höndunum á þeim sem seldu. Og ef við lengjum þann viðmiðunartíma meira aftur á bak, þá er hættan auðvitað sú að æ stærri hluti af þeim veiðirétti lendi í höndunum á þeim sem eru hættir. Ég tel að það komi ekki til greina og mun beita mér harkalega gegn slíkum hugmyndum.