Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 15:41:56 (1132)

2001-11-02 15:41:56# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[15:41]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er lagt fram af hæstv. sjútvrh. er vinna ýmissa aðila að því að lagfæra það ástand sem hefur ríkt hjá smábátamönnum frá því að lög voru sett á þá árið 1999, en þau lög voru af mörgum, þegar skoðað var síðar meir, álitin ganga of skammt til þess að krókabátar gætu lifað í því kerfi sem þeim var ætlað. Þessi lög 1999 voru samt samþykkt hér mótatkvæðalaust á þinginu. Þegar þau voru sett sáu menn glöggt að ekki var um annað að ræða en að setja smábáta á kvóta, og þá ekki einungis í þorski heldur einnig í öðrum tegundum.

Þær tillögur sem hér liggja frammi eru í mínum huga mjög góðar og í anda þess sem unnið var eftir á þessu ári, og vil ég nú þakka hæstv. sjútvrh. fyrir að hafa unnið vel með smábátamönnum að þessu máli og öðrum aðilum sem málið varðar og hafa sýnt því áhuga. Ég vil um leið segja að mér þótti mjög einkennilegt í þeirri vinnu sem fór fram að Landssamband smábátaeigenda og fulltrúar þeirra vildu hvergi koma nærri, og það var sama hvernig við þá var rætt um það að koma að því með einhverju móti til þess að tryggja hag sinna umbjóðenda --- þeir höfðu ekki neinn áhuga á því að ræða neinar breytingar innan þessa kerfis því að þetta kerfi væri þeim ekki þóknanlegt. Þeirra barátta var fyrst og fremst um að breyta kerfinu aftur til fyrra horfs eins og það var 1996. Og ég verð að lýsa því hér yfir að mér fannst frekar dapurt að það skyldi enda þannig að Landssamband smábátaeigenda, sem er sá félagsskapur sem á að gæta hagsmuna smábátaeigenda, skyldi hvergi vilja koma nærri.

Þau atriði sem hér eru talin upp í þessu frv. eru öll til bóta að mínu mati. Það sem skiptir þó mestu máli er 7. gr. um viðbót á aflahlutdeild til krókabáta í ýsu, steinbít og ufsa. Jöfn skipti á milli kerfa skipta miklu máli sem og það atriði að smábátar geti selt sín á milli og smáfiskur sé heimill í aflanum að stærri hluta en áður hefur verið. Eflaust má ræða lengi um það hvort það hefði verið betri leið að miða við einhver önnur tímabil ef við lítum á 7. gr., það hefði e.t.v. átt að miða við tvö ár í staðinn fyrir eitt eða leyfa mönnum að velja betra árið af tveim eða eitthvað því um líkt. Ég veit vel að þau sjónarmið koma upp og menn vildu fá að velja sér tvö ár eða taka meðaltal tveggja ára. En þetta varð niðurstaðan og það sem gerist síðan er að þeir bátar sem hafa verið að veiðum á síðasta ári og fram á þetta ár eru allir að fá eitthvað. Ég veit um dæmi þess að menn eru að þrefalda og fjórfalda afla sinn miðað við kvótaúthlutunina 1. sept. sl. Sem dæmi um þetta fékk bátur 1. sept. 5 tonn en verður með 20 tonn --- hann mun í því tilfelli fjórfalda afla sinn en hann bætir við sig 15 tonnum frá því sem hann hefði annars fengið að óbreyttu. Fyrir þennan aðila er þetta gríðarlega mikið hagsmunamál.

[15:45]

Ég veit um önnur dæmi, t.d. um einn sem fær 17 tonn til viðbótar af ýsu við 26 tonn sem hann hafði fengið úthlutað 1. september sl. þannig að fyrir þann aðila er þetta mikil bót og fyrir alla þá sem stunduðu veiðar á síðasta ári og fram til 31. maí á þessu ári, fyrir þá er þetta frv. mikil bót. Ég heyri ekki annað en að flestallir trillukarlar séu tiltölulega sáttir við það sem er að gerast. Ég held að þeim sé orðið það ljóst, eins flestum í þjóðfélaginu vona ég, að það gat ekki gengið öllu lengur að krókabátar einir væru með frjálsar heimildir til veiða í botnfiski umfram alla aðra. Ekki vegna þess endilega að þeir ættu það ekki skilið og það væri ekki mikilvægt fyrir byggðirnar heldur eingöngu vegna þess að smábátarnir eru orðnir það afkastamikil veiðiskip að sá floti einn gæti veitt allan botnfiskafla sem leyfilegt er að veiða við Íslandsstrendur, ef allir þeir bátar sem þar eru yrðu stækkaðir upp í hámarksafköst eins og þau gerast best í dag. Við hefðum því einfaldlega séð þetta kerfi smám saman springa þannig í andlitið á okkur að ekki væri við neitt ráðið og þá hefði ekki einu sinni verið hægt að semja. Staða krókabátanna hefði því hugsanlega verið mun verri eftir það en hún er með þessu.

Með þessari breytingu er náttúrlega fyrst og fremst verið að reyna að tryggja að þeir sem hafa stundað krókaveiðar sem fulla atvinnu geti gert það áfram þrátt fyrir breytinguna. Þeir sem eiga ekki möguleika á því að stunda þetta sem fulla atvinnu með þeim afla sem þeim er úthlutað hafa möguleika á því að kaupa sér eða leigja frá öðrum sem gefur þeim þá viðbótarmöguleika. Það er mjög mikilvægt og er þá um leið að gera þetta kerfi að alvörustjórnkerfi.

Ég heyri það á mörgum trillukörlum að þeir bíða eftir því að geta farið að fjárfesta í þessu kerfi, í aflaheimildum, þ.e. að kaupa eða leigja til sín afla og fjárfesta til framtíðar vitandi það að verið er að reka smábátaútgerðina í kvótakerfi sem er sýnilegt að muni standa til margra ára. Það er mjög mikilvægt fyrir smábátakarla, trillukarla og alla sem stunda sjávarútveg að vita að reka eigi sjávarútveginn samkvæmt aflastýringarkerfi eða kvótakerfi um nánustu framtíð því að öðruvísi getur enginn treyst sér til að fjárfesta sem einhverju skiptir og vita aldrei nema ár fram í tímann hvort þeir fái einhverja aflaúthlutun eða ekki. Það er því afskaplega mikilvægt fyrir alla aðila að fá þetta á hreint og þessi lög í sjálfu sér gera það eins skýrt og mögulegt er og þess vegna sé ég ekki fyrir mér annað en að þeir aðilar verði mjög sáttir með það.

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að þó að sátt náist við sjómenn um það sem verið er að vinna í þinginu af stjórnarmeirihlutanum þá virðist vera mun erfiðara að ná sátt milli stjórnmálamanna um hvernig stýra eigi sjávarútvegskerfinu. Það kemur hver aðilinn á fætur öðrum í stjórnarandstöðunni með nýjar og nýjar hugmyndir um hvernig stýra eigi að veiðunum. Við höfum séð það í gegnum árin hvernig menn hafa komið með hverja hugmyndina á fætur annarri og hafa stundum náð fótfestu með þær hugmyndir sínar. Og út á hvað hefur það verið? Það hefur verið út á það að náðst hefur samhljómur í því að kalla útgerðarmenn gjafakvótamenn, þeir hafi fengið þetta á silfurfati, öll verslun með aflaheimildir og annað væri brask og reynt að gera ímynd útgerðarmanna braskkennda. Þeir hafi ekki verið heiðarlegir eftir því sem manni hefur heyrst í þeim áróðri sem verið hefur gagnvart útgerðarmönnum almennt í landinu. Þeir hafa í raun og veru orðið fyrir einelti í áraraðir út af þessu kerfi sem Alþingi bjó til.

Maður hefði búist við því að með þeim hugmyndum sem komu út úr sáttanefndinni og öllum þeim nefndum sem hafa verið í gangi, að menn næðu einhverri niðurstöðu og hættu þessu einelti og að því kæmi að menn sæju að það ætti að gefa þessari atvinnugrein tækifæri til að þróast án svona mikillar gagnrýni eins og verið hefur. En ég sé á þeim frv. sem fram undan eru og þeirri umræðu sem hefur verið hér í dag að það verður ekki, því að nú þegar liggja fyrir frv. um svokallaða fyrningarleið sem menn hafa verið að reyna að átta sig á hvað þýði og síðan hafa enn aðrir haft mikinn áhuga á færeysku leiðinni. Þegar maður lítur á svokallaða færeysku leiðina þá er látið eins og sú leið hafi aldrei verið reynd. Við höfum reynt sóknardagakerfi hér á Íslandi, reyndar ekki með úthlutun sóknardaga á hvert einasta skip fyrir sig sem væri síðan framseljanlegt heldur hafa útgerðir fengið að vera á sjó ákveðna daga og allir fengið að vera á sama tíma í svokölluðu skrapdagakerfi. Að fara út í sóknardagakerfi er allt annað fyrir okkur en Færeyinga sem voru með sjávarútveg sinn í algerri rúst og sárafá skip eftir í útgerð í Færeyjum þegar verst stóð hjá þeim. Við erum aftur á móti með flota sem er svo stór, eins og ég sagði áðan, að aðeins smábátaflotinn, aðeins krókabátaflotinn getur veitt allan þann botnfiskafla sem úthlutað er á Íslandi í dag. Bara sá eini hluti flotans getur gert það. Þá eigum við eftir togaraflotann og bátaflotann og alla hina sem eiga sinn rétt til að veiða. Við getum því ekki bara af þeim ástæðum farið út í þetta nema þá að kaupa upp stærstan hluta flotans áður.

Þar að auki mundum við tapa þeirri hagkvæmni sem felst í að færa aflaheimildir á milli, einstaka tegundartilfærslur á milli skipa sem hefur reynst útgerðum og vinnslustöðvum í landi mjög hagkvæm og einnig sérhæfingu í vinnslu. Því held ég að við mundum tapa þar mjög góðum möguleika til að auka arðsemi greinarinnar.

Ég er líka hræddur um að með því sóknardagakerfi sem maður gæti ímyndað sér að kæmi hér, þá mundi upphefjast sama keppnin og hefur alla tíð verið í sóknarkerfi, þ.e. vertíðarfyrirkomulag þar sem allir keppast við að veiða sem mest á sem allra skemmstum tíma og kostnaður á sóknareiningu fer upp úr öllu valdi. Ég er því hræddur um að þetta kerfi muni aldrei geta gagnast okkur og vona ég að menn fari ekki að hringla með það enn eina ferðina.

Svokölluð fyrningarleið er svo enn annað og mér heyrist að sú umræða eigi eftir að komast á eitthvert skrið hjá stjórnmálamönnum að reyna megi svokallaða fyrningarleið. Fyrningarleið er í raun einhver aðferð eða tilraun til að taka allar fiskveiðiheimildir útgerðarmanna eignarnámi. Í raun felst það í fyrningarleiðinni að sósíalísera allar aflaheimildir útgerðarmanna og ríkið hafi þær til úthlutunar eftir sínum geðþótta. Það er svokölluð fyrningarleið. Ég skil ósköp vel þá menn sem hafa þá lífsskoðun að vilja að ríkið sjái um stjórn á öllu. Kvótakerfið er aftur á móti aðferð þar sem útgerðarmaður getur nýtt langtímaveiðirétt sinn og skilað því sem honum ber með því að hámarka afraksturinn af þjóðareigninni. Það er munurinn á þessum tveimur kerfum, fyrningarleiðin er allsherjarsósíalísering á þeim sjávarútvegi sem við stundum í dag.

Ég á ekki von á öðru en umræða um fyrningarleiðina verði hér í þingsölum. En ég vona að það nái ekki eins sterklega til almennings og annað, nema þá sem hrein deila um hvaða hugmyndafræði eigi að ríkja um rekstur fyrirtækja á Íslandi almennt og hugmyndafræðilega séð er ég svo sem ekki hræddur við þá umræðu sem er fram undan varðandi þetta svokallaða fyrningarkerfi. Það eina sem ég hef áhyggjur af varðandi það er útgerðarformið, að rekstur sjávarútvegsfyrirtækjanna í landinu truflist of mikið. Það verður að segjast eins og er að mjög vel hefur tekist að raska ró manna í sjávarútvegsgeiranum eins og hann er rekinn í dag. Sá áróður sem þar hefur dunið yfir menn er mjög ósanngjarn og útgerðarmenn hafa setið undir ámæli sem þeir eiga engan veginn skilið. Ég vona að með því frv. sem hér liggur frammi og þeim frv. sem hæstv. sjútvrh. á eftir að leggja fram á næstu mánuðum náist að skapa þá sátt um sjávarútveginn sem hann á skilið.