Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 16:12:21 (1141)

2001-11-02 16:12:21# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[16:12]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var margt í þessari ræðu sem ég áttaði mig ekki almennilega á og kannski treysti ég mér ekki til að fara að spyrja út í allt sem ég ekki skildi. Það eru þó a.m.k. tvær spurningar sem mér finnast standa upp úr. Sú fyrri lýtur að þeirri fullyrðingu hv. þm. að það kerfi sem við nú erum að fjalla um --- við erum að endurbæta það kerfi sem hér hefur ríkt um nokkuð langt skeið --- að breytingar þessa kerfis feli í sér einhvers konar sátt. Nú hafa flestöll smábátafélög landsins ályktað í þá veruna að þau vilji ekki ganga inn í þetta kerfi. LÍÚ sem nú er að funda fjallaði um það í gær, m.a. formaður þess, að það væri kolómögulegt að heimila smábátaútgerðinni þann viðbótarkvóta sem nú á að leyfa henni. Því spyr ég hv. þm.: Hvar liggur þessi sátt? Mér er algerlega fyrirmunað að sjá hana.

Síðari spurningin lýtur að þeirri fullyrðingu að einhvers konar sósíalismi í þessu sé hættulegur. Ég spyr hv. þm.: Hvaða hugmyndir hefur hann um meiri miðstýringu en þá þegar verið er að skipta aflaheimildum milli manna, að samningaviðræður um það fari fram við stjórnvöld eins og hér er á ferðinni? Hér er um að ræða frv. um það hverjir megi veiða örlítið meira en áður og ég spyr: Hvaða kerfi getur hann hugsað sér sem felur í sér meiri sósíalisma, eins og hann skýrði hann út áðan, en þann að þeir aðilar sem koma að þessu þurfi að eiga allt sitt undir viðræðum við stjórnvöld?