Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 16:17:11 (1143)

2001-11-02 16:17:11# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[16:17]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að það liggi fyrir að um það frv. sem hér er til umræðu er engin sátt, ekkert samkomulag heldur er þetta ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Það er engin sátt á bak við þetta.

Þegar hv. þm. talar um sósíalíseringu sem ég gaf enga einkunn hér, ég nefndi það einfaldlega að hann hefði talið hana hættulega, þá spurði ég þeirrar spurningar hvort hann geti ímyndað sér meira miðstýringarkerfi en það að hæstv. sjútvrh. komi hingað með niðurstöðu sína um að tilekinn hópur skuli veiða örlítið meira og aðrir þá örlítið minna. Þetta er ákvörðun stjórnvalda en í henni felst ekki nein sátt. Þetta er fyrst og fremst miðstýringarkerfi sem við erum að fjalla um núna og þess vegna spurði ég hv. þm. hvort hann gæti látið sér til hugar koma meira miðstýringarkerfi en það sem við erum að fjalla um einmitt núna.