Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 16:52:32 (1150)

2001-11-02 16:52:32# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[16:52]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil rétt rifja það upp að það var hv. þm. sem nefndi hugsanlegar frjálsar veiðar smábáta í fyrra andsvari sínu. Ég svaraði þeim orðum.

Hv. þm. nefndi líka frystitogara og hefur gert grein fyrir því að hann telur hugsanlegt að flytja aflaheimildir á milli skipaflokka. Ég verð að viðurkenna að ég tel ekki að það sé auðveld lausn og mæli ekki með þeirri hugmynd.

Ég gengst hins vegar fyllilega við því að ég hef eins og aðrir hv. þm. sem hafa starfað í meiri hluta sjútvn. á undanförnum árum tekið þátt í þeim ráðstöfunum og ákvörðunum sem liggja í efni þeirra frv. sem nefndin hefur mælt með eða meiri hluti hennar. Ég vil á engan hátt draga úr minni eigin ábyrgð eða sameiginlegri ábyrgð minni og annarra þingmanna.

Hér hefur hins vegar verið vakið máls á því að til er gleymdur floti. Á það benti ég.