Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 16:53:46 (1151)

2001-11-02 16:53:46# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[16:53]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Svo sem von var á hafa spunnist hér allítarlegar umræður um dagskrármálið. Ég held að mér sé óhætt að segja að allir ræðumenn gera sér grein fyrir því að við erum að glíma hér við ákveðið vandamál þótt ekki séu allir á eitt sáttir um hver sé rót vandans. Ég held að mér sé líka óhætt að segja að flestir séu þess sinnis að koma eigi til móts við þá sem lenda í einhverjum erfiðleikum vegna þeirra breytinga sem tóku gildi 1. sept. sl.

Ég vil gjarnan reyna að svara hér nokkrum spurningum sem til mín hefur verið beint.

Í fyrsta lagi hefur verið spurt um veiðireynslutímabilið hvað varðar viðbótina til krókaaflamarksbátanna. Þá er því til að svara að með þessu er verið að reyna að nálgast eins og hægt er það tímabil sem gefur þeim viðbótarkvóta sem stunda þessar veiðar akkúrat um þessar mundir eða rétt áður en krókaaflamarkskerfið tók gildi. Það hafa verið talsvert mikil viðskipti með þessa báta og hefur sennilega sjaldnast verið þannig að fylgt hafi með í kaupum hugsanleg veiðireynsla í aukategundunum eftir 1. sept. sl. Þess vegna taldi ég eðlilegt að reynt yrði að úthluta þessari viðbót til þeirra sem eru í þessum veiðum en ekki til þeirra sem voru í þessum veiðum einhvern tímann á árum áður.

Ég ætla svo sem ekki að útiloka að ekki sé hægt að ná þessu markmiði á annan hátt en lýst er í frv. og sjálfsagt að nefndin skoði það þá. Sjái hún aðra leið til þess að ná þessu markmiði þá mun ég að sjálfsögðu ekki setja mig upp á móti því.

Það var einnig spurt um hvers vegna einungis væri miðað við 5% í veiðiferðinni. Því er til að svara að hér er verið að fara ótroðnar slóðir og ég tel því rétt að fara varlega í þessu efni. Það má segja að þetta atriði sé hluti af stærri mynd. Það er verið að reyna að losa um þann þrýsting sem hefur skapast kringum brottkast. Undir tilteknum kringumstæðum virðist myndast spenna í kerfinu sem leitt getur til brottkasts. Þetta er ein leiðin til að létta á þeirri spennu.

Það má eiginlega segja að þeir sem standa frammi fyrir þeim möguleika að jafnvel sé skynsamlegt fyrir þá að henda fiski í sjóinn þurfi að hugsa um hvort þeir geti nýtt sér tegundartilfærsluna, sem geti verið alltaf 5% af kvóta skipsins, þó ekki nema 2% yfir í hverja einstaka tegund. Þá gefst kostur á að láta þessi 5% til Hafrannsóknastofnunarinnar og síðan er möguleiki á að skipta í beinum eða jöfnum skiptum, þ.e. þar sem búið að breyta lögum þannig að það er ákveðinn tími sem menn hafa til að laga kvótastöðuna á bátunum eftir að hún er komin niður fyrir núllið. Síðan má auðvitað kaupa sér kvóta á opnum kvótamarkaði. Þannig að það eru möguleikar í þessari stöðu og menn ættu því ekki að þurfa að henda fiski í sjóinn og þessi leið er þar af leiðandi ein af nokkrum sem menn hafa. Það er verið að feta nýja slóð og reynt fara varlega og þess vegna er ákveðið að hafa þetta 5% í hverri veiðiferð.

Síðan var spurt hvort úthlutun samkvæmt 3. gr. eða viðbótinni við 9. gr. væri framseljanleg. Það hafa ekki verið settar neinar reglur um það en miðað við það hvernig farið hefur verið með 12 þús. tonnin í 9. gr. fram til þessa þá hefur þeim verið úthlutað árlega eins og gert er ráð fyrir með það magn sem hér um ræðir. Þar af leiðandi hefur það ekki verið framseljanlegt sem aflahlutdeild en hins vegar hefur úthlutunin verið framseljanleg sem aflamark. Ef við höfum það síðan í huga að þessu er úthlutað árlega hlýtur auðvitað að koma til skoðunar við úthlutun hvers árs hvernig menn hafa nýtt þessa úthlutun, hvort hún hefur komið þeim byggðum til góða sem verið var að reyna að styðja eða hvort menn hafa framselt þetta sem aflamark. Því er til að svara að almenna reglan varðandi 9. gr. hefur verið að heimildir væru framseljanlegar innan ársins.

Það var einnig spurt um 7. gr., varðandi dagsetninguna við hugsanlegt val yfir í dagakerfið, hvers vegna miðað væri við 1. nóv. í frv. Frv. var lagt fram í október þó það sé fyrst rætt núna í byrjun nóvember. Þetta er auðvitað dagsetning sem þarf að breyta í meðförum nefndarinnar því auðvitað nær greinin ekki tilgangi sínum ef dagsetningin er 1. nóvember. Ég hef metið það þannig að þetta lægi í augum uppi.

[17:00]

Síðan var spurt um 10% regluna varðandi dagakerfið, hvort þetta væri þá ekki almenn regla varðandi aðra útgerðarflokka. Ekki get ég svarað því þannig að þetta sé almenn regla en hins vegar held ég að það sé auðvitað rétt að það er mjög skaðlegt þegar miklar breytingar verða á milli ára eða miklar breytingar á skömmu tímabili, svo maður nefni það almennt. Auðvitað má því segja að grundvallarhugmyndin á bak við þetta frv. og þann viðbótarkvóta sem krókaaflamarksbátarnir fá sé sú að menn verði ekki fyrir of miklum breytingum á of skömmum tíma. Þó að 10% séu kannski ekki lögð þar sérstaklega til grundvallar þá er hugmyndin sú sama, að breytingar verði ekki of miklar á stuttum tíma.

Síðan var spurt út í atriði sem ekki eru í frv., annars vegar varðandi stærð báta og hins vegar varðandi dagakerfið og hugsanlegar breytingar þar á. Því er til að svara að þessar breytingar standa ekki í sérstöku sambandi við að krókaaflamarkið tók gildi 1. sept. sl. Endurskoðunarnefndin hefur hins vegar lagt til að þessum bátum, þ.e. krókabátunum, verði heimilað að verða allt að 15 tonn. Þetta atriði mun koma til úrvinnslu þegar samið verður frv. til laga um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða og þar verður endurskoðunarnefndarskýrslan ásamt öðrum gögnum lögð til grundvallar. Þá verður tekin afstaða til þessa atriðis.

Og síðan er það spurningin um dagakerfið. Það verða engar róttækar breytingar á dagakerfinu vegna upptöku krókaaflamarkskerfisins. Ég hef hins vegar verið þeirrar skoðunar að dagakerfið sé að mörgu leyti ómanneskjulegt vegna þess að menn séu beinlínis hvattir til þess að sækja sjó í allt að 24 tíma í einu. Ég hef lýst því yfir að ég sé tilbúinn að skoða það að gera breytingar á því en þó þannig að það auki ekki sóknargetu þessara báta.

Ég hef átt viðræður um þetta við Landssamband smábátaeigenda. Þeim hugmyndum sem ég hef lagt fram og hafa byggst á tölum um hvernig þessir bátar hafi nýtt sólarhringinn hefur verið hafnað.

Ég hef hins vegar lýst því yfir að ég sé tilbúinn til frekari viðræðna um bæði þetta atriði og önnur atriði sem leitt geti til þess að auka hagræðingu í þessum útgerðarflokki og þá jafnframt á þeim grundvelli að sóknargeta þessara báta aukist ekki. Á síðasta ári var gert ráð fyrir því að þeir ættu að veiða 1.500 tonn. Sú hlutdeild sem þeir hafa er 1.500 tonn en þeir veiddu milli 9 og 10 þúsund tonn. Í þeim mismun liggur auðvitað að dögunum mun fækka en eftir að dagarnir eru komnir niður fyrir 20 þá getur þeim einungis fækkað um einn á ári. Ég tel því talsvert langt í land með að þessi bátaflokkur fari að veiða þau 1.500 tonn sem hann raunverulega á veiðireynslu til.

Eins og ég hef sagt þá hef ég lýst mig viljugan til að ræða þessi mál og mun vonandi hafa tækifæri til þess að ræða það við Landssamband smábátaeigenda. Vonandi munum við þá komast að einhverri niðurstöðu sem lögð yrði fyrir þingið, helst á þessu þingi. Ég sé enga ástæðu til að tefja það neitt lengur ef menn finna ásættanlega niðurstöðu.

Ég held, herra forseti, að það hafi ekki verið fleiri beinar spurningar sem ég þarf að svara varðandi þessi mál. Ég vil hins vegar leggja áherslu á að það skiptir talsvert miklu að þetta mál fái tiltölulega röska afgreiðslu í þinginu. Það er farið að líða talsvert á fiskveiðiárið og það er nauðsynlegt fyrir þennan útgerðarflokk, eins og aðra útgerðarflokka, að vita hvert aflamark hans er á fiskveiðiárinu og ekki sé nein óvissa um hvað þeir megi veiða á þessu ári. Þeir þurfa að geta skipulagt vinnu sína eins og aðrir í samræmi við það.