Svar við fyrirspurn

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 15:21:30 (1165)

2001-11-05 15:21:30# 127. lþ. 21.92 fundur 102#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[15:21]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Síðasta ræða hv. þm. Jóns Bjarnasonar bendir til þess að hann þurfi að lesa lagasetninguna og lögin og virða mannréttindin því það er alveg skýrt að það er hlutverk þess sem kaupir að þinglýsa þeirri eign og fyrr er hún ekki komin á það stig en hann hefur gert það. Landbrn. hefur ekki það frumkvæði. Þetta var nú villan. Svo kom auðvitað upp í hv. þm. þessi gamli góði kommi sem ekkert vill selja, jafnvel ekki bændunum sem hafa búið í tíu ár (JB: Það er rangt.) eða lengri tíma því að megnið af þeim jörðum hefur verið selt mönnum sem hafa setið jarðir sínar vel og hafa búið þar.

Síðan voru hér náttúrlega skemmtileg spaugsatriði úr Samfylkingunni sem glöddu hjarta mitt. Mér fannst að lögfræðingar Samfylkingarinnar sem tóku þátt í umræðunni töluðu með fjólubláum augum. Þeir vissu að þeir voru ekki að fara með rétt mál. Þeir vita meira um mannréttindi en þeir létu uppi. En þeir vita líka að lögfræðin er flókin grein og sitt sýnist hverjum. Út frá mannréttindum, og út frá upplýsingalögum hefur ráðuneyti mitt og ég talið skylt að menn héldu utan um mannréttindin í þeim efnum.

Við höfum ekkert að fela hvað varðar þetta mál. Það hefur verið unnið eftir þeim reglum sem settar voru í samráði við ríkisendurskoðanda, Sigurð Þórðarson, og í ljósi umræðunnar sem varð hér á haustdögum hef ég beðið hann að fara sérstaklega yfir jarðadeildina og sölu á ríkisjörðum frá 1. maí 1999 með það í huga hvort við höfum ekki staðist allar þær reglur sem settar voru í samráði við hann og ég vona að þær upplýsingar liggi fyrir fljótlega.

Því miður, hæstv. forseti, var ekki hægt af mörgum ástæðum sem ég hef rakið að svara þessu máli ítarlegar en hér var gert. Það er ekkert að fela. Það er allt hreint í þessu máli og hefur verið unnið samkvæmt þeim reglum sem settar voru.