Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 15:52:02 (1172)

2001-11-05 15:52:02# 127. lþ. 21.1 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., SvH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[15:52]

Sverrir Hermannsson (andsvar):

Herra forseti. Maður hefur hlýtt á það um langa hríð að hæstv. sjútvrh. hefur hvatt menn til að ganga að tillögum auðlindanefndar, þeirri sáttatillögu sem auðlindanefnd hafi komið sér ásamt um. Fyrir því var það að ég sperrti mjög eyrun þegar ég heyrði hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur upplýsa það hér á föstudaginn er leið að svo hefði þetta ekki verið. Nú kemur upp annar nefndarmaður, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, og upplýsir að veiðigjaldsleiðin hafi verið tekin inn fyrir beiðni tveggja manna í nefndinni, fulltrúa vinnuveitenda, fulltrúa sægreifanna. Þetta eru mikilvægar upplýsingar að ég segi ekki meira.

En mér er spurn og vil fá svar. Hvernig í ósköpunum mátti það vera að nefndarálitinu var skilað án þess að upplýsa þetta? Og ofan í kaupið gera þessir tveir fulltrúar LÍÚ í nefndinni ágreining um allt nefndarálitið. Það var ekkert sameiginlegt nefndarálit út úr auðlindanefnd. Þá er það bara að nafninu til vegna þess að þessir tveir menn sem fengu því framgengt að aðferðinni sem frá upphafi átti að beita er laumað þarna inn.

Ég hef lesið þetta álit og mér kemur á óvart ef eitthvað finnst í því sem upplýsir þessa mögnuðu stöðu sem kemur upp í nefndinni og afleiðingar þessa. Og nú mæta menn hér eftir dúk og disk og bera af sér sakir, þær sakir sem sjálfur hæstv. sjútvrh. ber á þá, að bera ábyrgð á aðferð og tillögu sem aðeins tveir af níu í nefndinni gerðu að sinni, og var ritstýrt og saman sett niður í Landssambandi íslenskra útvegsmanna.