Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 15:58:38 (1175)

2001-11-05 15:58:38# 127. lþ. 21.1 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[15:58]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur kannski ekki heldur komið fram nægilega skýrt í þessari umræðu að þær tvær leiðir sem þó var fallist á þegar rætt var hvernig ætti að innheimta þessi gjöld, þ.e. að gengið var lengra í sjávarútvegi heldur en annars staðar, gerðu báðar ráð fyrir uppboði á tilteknum hluta, líka veiðigjaldsleiðin eins og hún er nefnd í auðlindanefndinni. (SvH: En þeir sem gerðu fyrirvara?) Þeir gerðu aðeins fyrirvara um að þeir vildu fara veiðigjaldsleið.

Eins og veiðigjaldsleiðin er skilgreind í niðurstöðu auðlindanefndarskýrslunnar kemur skýrt fram að menn geti keypt sig á uppboði inn í þennan tiltekna hundraðshluta þannig að sú veiðigjaldsleið sem embættismanna- og þingmannanefnd hæstv. sjútvrh. komst að er ekki heldur til í skýrslunni. (Gripið fram í) Hún er ekki heldur til í skýrslu auðlindanefndar, sú veiðigjaldsleið sem þar er nefnd, þannig að hún er heldur ekki til.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að þær hugmyndir sem koma frá meiri hluta endurskoðunarnefndarinnar eiga sér litla sem enga stoð í niðurstöðum auðlindanefndar nema ef vera kynni nafnið á veiðigjaldsleiðinni. Í auðlindanefnd er það kallað veiðigjaldsleið, en þar er líka tekið skýrt fram að tiltekinn hundraðshluti skuli vera á markaði á hverju ári.

Ég ítreka þetta enn og aftur, virðulegi forseti, og mér þykir miður að hæstv. sjútvrh. er ekki hér í dag. Það vildi þannig til að ég var næstur á mælendaskrá þegar hann kom inn og gat því ekki haldið þá ræðu á föstudaginn að honum viðstöddum sem ég vildi hafa haldið og hélt hér. Hins vegar gerði hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir glögga grein fyrir þessu einnig í máli sínu, en hæstv. ráðherra kom lítið sem ekkert inn á það.

Ég vil halda þessu til haga. Veiðigjaldsleið auðlindanefndarinnar er ekki veiðigjaldsleið meiri hluta endurskoðunarnefndarinnar.