Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 16:21:46 (1177)

2001-11-05 16:21:46# 127. lþ. 21.1 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[16:21]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er eiginlega svolítill vandi að ákveða hvar maður eigi að byrja og hvar enda eða hvernig maður eigi að takmarka sig í umræðum um þessi mál. Um þetta má í sjálfu sér hafa bæði langt mál og stutt. Ég ætla ekki að endurtaka margt sem þegar er komið fram í umræðunni, gagnrýni á þessa málsmeðferð, heldur vísa til þess sem sett var fram, bæði af hálfu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og fleiri hér í löngum umræðum sl. föstudag.

Í fyrsta lagi er þó óhjákvæmilegt að staldra aðeins við hina almennu stöðu þessara mála, herra forseti. Ekki verður sagt að það blási sérstaklega byrlega hjá hæstv. sjútvrh. og ríkisstjórn að koma á einhverjum þolanlegum friði um meðferð þessara sjávarútvegsmála almennt. Ég hygg að þær umræður sem orðið hafa hér á þingi og í þjóðfélaginu undanfarnar vikur, bæði í kjölfar niðurstöðu svokallaðrar endurskoðunarnefndar og í tengslum við málefni smábátanna, segi nú allt sem segja þarf um það hvar menn eru á vegi staddir í þeim efnum. Það er síst friðsamlegra en verið hefur lengst af í þessum efnum, og hvergi í sjónmáli breytingar á núverandi fyrirkomulagi sem einhver sátt virðist geta orðið um.

Ég held, í öðru lagi, herra forseti, að saga kvótakerfisins sem verður 19 ára gömul núna innan skamms --- 18 ára verður kerfið sjálft núna um áramótin --- sé ágætt dæmi um vegferð þar sem markmiðið gleymist, og aðferðin til að ná markmiðunum fram verður að aðalatriði málsins. Stundum er sagt að menn lendi í styrjöldum eða rifrildi og gleymi svo upphaflega tilefninu, séu orðnir svo uppteknir af leiknum sjálfum, og óneitanlega jaðrar við að þetta hvarfli að manni í sambandi við hið svonefnda kvótakerfi. Það er sárasjaldan rætt um hin upphaflegu markmið kerfisins, sem var að byggja upp fiskstofnana, sem var að koma á réttlátri og sanngjarnri útdeilingu þessara réttinda í ljósi þess að það yrði að takmarka sókn manna í stofnana. Kvótakerfið sjálft, tækið, aðferðafræðin, er orðið aðalatriðið og umræðan snýst um það. Það er næstum orðið markmið í sjálfu sér að verja kvótakerfið sem aðferð, sem kerfi, sem tæki, og upphaflegu markmiðin eru gleymd og grafin. Þannig gerist það, herra forseti, og er svo sem ekki nýtt í mannkynssögunni, að fyrirbæri af þessu tagi fara að lifa af sjálfu sér, óháð þeim markmiðum sem þau voru upphaflega innleidd til þess að ná fram. Þannig er þetta í raun og veru orðið í mjög ríkum mæli með þetta blessaða kvótakerfi. Menn eru t.d. orðnir svo uppteknir af því eðli þess að úthluta hlutdeild í fiskstofnunum að heilir fundir og ráðstefnur og þing snúast um þennan þátt málsins, prósentuna, en ekki um það sem þetta á allt saman að snúast um, þ.e. að tryggja réttláta, hófsamlega og þjóðhagslega hagkvæma nýtingu þessarar náttúruauðlindar, og að eftir föngum sé þar við komið sanngjörnum og eðlilegum leikreglum.

Ekki minnst, herra forseti, er þetta dapurlegt ef rifjað er aðeins upp hvernig til hefur tekist í sambandi við smábátana. Sú óskiljanlega saga --- það eru sennilega fáir sem kunna skil á henni til hlítar --- er auðvitað alveg ótrúleg og mun einhvern tímann, að mínu mati, eiga eftir að þykja merkilegt dæmi um hroðalega stjórnsýslu. Aragrúi eiginlega tilviljanakenndra ákvarðana og þvingunaraðgerða stjórnvalda telst til hennar, t.d. þegar mönnum er gert að velja um mismunandi leiðir út frá mjög óljósum forsendum sem síðan standast yfirleitt ekki stundinni lengur.

Þvingað val er t.d. eitt sem saga þessarar fiskveiðistjórnar smábátakerfisins er alveg vörðuð af. Mönnum eru settir þeir kostir að fyrir þennan eða hinn daginn að nokkrum vikum liðnum skuli þeir hafa valið hvort þeir ætli að taka aflamark eða krókaleyfi, hvort þeir ætli að taka þorskaflahámark eða daga, og í raun og veru er a.m.k. annar kosturinn óljós, ef ekki báðir. Mönnum er engu að síður stillt upp við vegg og þeir látnir velja á óljósum forsendum og fyrr en varir, fyrr en við er litið, skilur þetta allt í einu á milli feigs og ófeigs. Þetta er auðvitað alveg voðaleg aðferðafræði, herra forseti, og ekki von á góðu. Við erum t.d. að ræða þá báta og afkomendur þeirra sem árið 1990 völdu að veiða á svokölluðu krókaleyfi en völdu ekki að fara yfir í aflamark á grundvelli aflareynslu sinnar árin þar á undan. Auðvitað hefur síðan margt gerst í millitíðinni en einu verður varla mótmælt --- það litla sem er eftir af þeim hópi manna sem valdi aflamarkið 1990, kannski par hundrað bátar af þúsund eða svo sem voru í upphafi, hefur auðvitað farið mjög illa út úr hlutunum. Oft hefur verið þar talað um hinn gleymda flota. Mismununin sem hefur komið upp milli aðila eftir því hvaða leiðir þeir völdu --- stundum er það sjálfsagt bara hrein heppni eða tilviljun sem réði --- er auðvitað alveg óheyrileg. Og í þessu stjórnkerfi úir og grúir af dæmum um alveg gríðarlega mismunun, innbyrðis mismunun, eins og t.d. þegar einhverjir gátu sótt um tilraunaveiðileyfi í rækju, innfjarðarrækju, sem breyttist svo í fasta aflahlutdeild í sama staðbundna rækjustofni, sem aftur eftir eitt, tvö, þrjú ár var orðin tugmilljóna króna virði. En þeir sem ekki fengu tilraunaleyfin fengu ekki varanlega úthlutun ári síðar og sátu eftir með sárt ennið. Útgerðaraðilar í sambærilegri stöðu í sama byggðarlagi, hlið við hlið, og ekkert annað en svona slembiaðferðafræði réði þarna úrslitum um mikla hagsmuni.

Svo koma stuðningsmenn og verjendur þessa fyrirkomulags og ætla núna að sækja sinn rétt, verja sitt mál, á grundvelli þess að ekki megi mismuna, það sé svo óskapleg höfuðsynd í þessu kerfi, eins og það hafi aldrei komið fyrir áður.

Nú veit ég að það er ekki góð aðferðafræði í röksemdafærslu yfirleitt að réttlæta eina vitleysu með því að benda á aðra. En ég held að menn ættu þá að horfa á hvað aftur og aftur hefur gerst í þessu fyrirkomulagi, og upp að vissu marki er dæmt til að gerast í þeim skilningi að ef menn ætla að stjórna þessu og hafa um það einhverjar reglur hafa þær sín áhrif og sínar afleiðingar. Það vitum við.

Herra forseti. Það er mjög algengt í umræðum um smábátahópinn andspænis stærri fiskiskipunum að segja að þau hafi aukið hlut sinn og þar með tekið frá öðrum. Og hvaða hugarfari lýsir þetta? Jú, þetta lýsir inn í þennan hugarheim sem ég var að tala um, að kerfið er orðið að markmiði í sjálfu sér. Það er orðið svo fast í hugum manna að svona eigi þetta að vera og geti engan veginn öðruvísi verið en þannig að menn eigi prósentur í stofnunum, og þar með sé auðvitað verið að taka af þeim ef stjórnvöld, löggjafinn, ákveða að gera einhverjar breytingar á kerfinu sem þýða einhverjar tilfærslur eða einhverja þróun í greininni.

[16:30]

Niðurstaða þessa, herra forseti, er þá sú að menn eru í reynd að segja: Við fundum upp hið fullkomna og endanlega kerfi með aflahlutdeildarkerfinu á sínum tíma og þeirri viðmiðun sem það studdist við. Það skal um aldur og ævi vera rétt, og ef eitthvað er fært til eða stjórnvöld grípa inn í það með einhverjum hætti þá er verið að taka af mönnum. Þetta er ákaflega hættuleg hugmyndafræði, herra forseti, vegna þess að hún horfir fram hjá mjög mikilvægum grundvallaratriðum þessa máls, sem eru auðvitað í fyrsta lagi sameign þjóðarinnar á auðlindinni, sem er ótvíræður réttur Alþingis til að setja um leikreglur, sem eru atriði eins og atvinnuréttar- og byggðasjónarmið og mörg önnur slík, fyrir utan að sjálfsögðu fiskverndunarsjónarmiðin, sem eiga nákvæmlega sama rétt á sér sem grunnforsendur ákvarðanatöku í þessum efnum eins og önnur. Það er mikill misskilningur ef menn halda að prósentukerfi til einstakra aðila í fiskstofnunum hafi áunnið sér einhvern þann rétt eða það séu einhver þau sanngirnis- og réttlætisrök á bak við það sem geri það að verkum að stjórnvöld séu með bundnar hendur gagnvart því að gera þar á breytingar. Það er ekki svo.

Í nágrannalöndunum, þar sem þessu er stýrt með ýmsum mismunandi aðferðum, herra forseti, er þessi hugsun óþekkt af því að menn nálgast þetta ekkert svona. Í Noregi t.d. þegar þeir hafa orðið ítrekað að skera niður veiðiheimildir sínar hefur sá niðurskurður ekki verið látinn ganga jafnt yfir allan flotann. Það var aldeilis ekki þannig þegar kvótinn var tekinn sem mest niður í Noregi hér á árunum að þeirri skerðingu væri útdeilt jafnt, eins og prósentumenn hér mundu að sjálfsögðu heimta í anda þeirrar hugmyndafræði. Nei, það var ekki þannig í Noregi. Þar var smábátaflotanum og dagróðrabátaflotanum hlíft mun meira við samdrætti í bolfiskveiðiheimildum á heimamiðum heldur en stærri skipunum. Menn hefðu væntanlega getað jarmað eitthvað um jafnræðisreglu þar o.s.frv. En fyrir þessu voru efnisleg rök sem voru tekin gild, og hver voru þau? Jú, þau voru að stærri skipin hafa margfalt meiri möguleika, þeim standa opin ýmis önnur úrræði sem smábátum og dagróðrabátum sem nýta stofna og mið næst landinu hafa ekki. Þar með voru menn komnir með efnislegar forsendur til að gera þarna greinarmun á.

Að sjálfsögðu þurfa allar aðgerðir stjórnvalda að uppfylla skilyrði skynsamlegrar og sanngjarnrar ákvarðanatöku stjórnvalda í málum af þessu tagi. Að sjálfsögðu þarf að gæta meðalhófs og sanngirni og menn eiga ekki að þurfa að taka á sig breytingar án eðlilegrar aðlögunar að þeim o.s.frv. En Alþingi Íslendinga má stýra þessu og það má taka ákvarðanir um breytingu á þessu kerfi. Það er ekki þannig að menn hafi fundið hinn endanlega sannleik í aflahlutdeildarkerfi á grundvelli veiðireynslu á viðmiðunarárum langt aftur á hinni öldinni og að við sitjum uppi með það um aldur og ævi, ,,ad infinitum``. Það er ekki svoleiðis.

Það er ákaflega mikilvægt, herra forseti, að þetta sé undirstrikað vegna þess að mér finnst þetta vera farið að gleymast æ meira út úr umræðunni. Og þá er það auðvitað að gerast sem svo margir óttuðust að þetta kerfi helgi sér sjálft stöðu sem það ætli sér síðan að verja um aldur og ævi hvað sem tautar og raular, hvernig sem það reynist og hverjar sem afleiðingar þess verða.

Eigum við þá ekki aðeins að koma að því, herra forseti, hvernig gengur að uppfylla upphaflegu markmiðin með fiskveiðistjórnarkerfinu á grundvelli magntakmarkana, kvótakerfi, á sýnum? Hvernig gengur að byggja upp fiskstofnana? Allir vita hvernig það er á vegi statt. Hvernig gengur að tryggja sanngjarna og réttláta útdeilingu þeirra réttinda, t.d. með tilliti til atvinnuhagsmuna, byggðahagsmuna, sanngjarnrar tekjudreifingar og annarra slíkra hluta sem þarna eiga auðvitað að vera með? Ég býst við að hægt sé að setja á nokkrar ræður um það hvernig útkoma hinna einstöku byggðarlaga er í því sambandi.

Þess vegna, herra forseti, er ég að rifja þetta upp og draga inn í umræðuna að þegar menn ræða um hlutdeildir einstakra hluta flotans og hvort þar hafi tiltekinn hópur smábáta aukið sinn hlut eða ekki, þá á ekki að nálgast það mál út frá því að allt slíkt sé í grunninn óréttlátt og þar hafi verið eitthvað frá öðrum tekið, heldur spyrja að hinu: Eru efnisleg, sanngjörn og skynsamleg rök fyrir þeirri þróun sem er þarna að verða? Ég held að miklu nær væri að skoða þetta út frá þeim forsendum.

Um smábátakerfið í heild sinni, herra forseti, vil ég segja að lokum, og þá á ég ekki bara við þorskaflahámarksbáta og aðra þá sem undir efni þessa frv. falla, að ég held að það sé algjörlega óumflýjanlegt framtíðarmarkmið, og það má ekki vera inni í einhverri rósrauðri framtíð langt inni í öldinni, heldur sem fyrst, að stokka þetta kerfi algjörlega upp. Það er alveg gjörsamlega glórulaust að ætla að keyra þetta svona áfram gagnvart mönnum hlið við hlið með allri þeirri mismunun og þessu margfalda stýrikerfi sem þarna er á ferðinni. Það verður að setja það í heildarendurskoðun og reyna að ná fram, þó að undangengnu aðlögunartímabili væri, einu samræmdu stjórnkerfi fyrir þessi minni fiskiskip. Allt annað er náttúrlega algjörlega fáránlegt, að það skuli þurfa þessi ósköp, fjórfalt, fimmfalt, sexfalt kerfi eða hvað við eigum að segja það það sé, til að stjórna veiðisókn þessara minnstu skelja, það er algjörlega absúrd. Það er náttúrlega þvílíkur áfellisdómur fyrir framgang þessara mála, bara sú staðareynd að þetta skuli vera svona, að engu tali tekur.

Tökum aðrar atvinnugreinar og hugsum okkur t.d. vörubílaakstur eða iðnrekstur, þá væri þetta þannig að fyrir minnstu bílana, sendibílana kannski, væri sexfalt stjórnkerfi á því hvernig menn mættu selja þjónustu sína og starfrækja starfsemi sína á grundvelli leyfa. Ætli mönnum þætti það ekki alveg skínandi? Þá væru sex útgáfur af leigubílaleyfum í Reykjavík. Þetta er auðvitað alveg gjörsamlega fráleitt.

Þess vegna sætti ég mig ákaflega illa við að það skuli endalaust verða niðurstaðan hér að reynt sé að setja nýja og nýja plástra á kerfið og það haldi áfram í öllum sínum fjölbreytileik, og oftast hefur tekist að bæta eins og einum til tveimur nýjum hópum við í hverri meðferð.

Tökum 3. gr. í frv., herra forseti. Hvers konar plástraverk verður þetta í viðbót við allt hitt? Þúsund lestir af ýsu, þúsund lestir af steinbíti og þrjú hundruð lestir af ufsa. Hvar eru nákvæmnisvísindin á bak við þetta? Af hverju voru þetta ekki 320 lestir eða eitthvað þar um bil?

Hvernig á síðan að fara með þetta? Jú, það á að úthluta þessu til eins árs í senn til krókaaflamarksbáta, ekki annarra smábáta, sem gerðir eru út frá sjávarbyggðum sem að verulegu leyti --- af hverju var ekki t.d. sagt þarna að talsverðu leyti eða að þó nokkru leyti? --- eru háðar veiðum krókaaflamarksbáta. Ráðherra setur síðan nánari reglur um þetta í reglugerð. Við vitum alveg hvernig þetta verður síðan á endanum. Enn eitt plástraverkið af þessu tagi, þó í litlu sé, og ég tek að sjálfsögðu fram að ég er ekki andvígur viðleitninni sem ég veit að er þarna á bak við, að mæta sárasta áfallinu sem þessi hópur yrði ella fyrir. En guð minn góður, hjálpi okkur allir heilagir, útfærslan á þessu endalaust.

Herra forseti. Ég hlýt að endurtaka það að maður verður ekki beint upprifnari með árunum eftir því sem maður hefur fylgst lengur með þessu og enn á ný koma niðurstöður af þessu tagi upp á borðin hjá okkur.

Þó er rétt að hugga sig við það sem jákvætt er, herra forseti, og það kemur fram í 4. gr. frv. Þar finnst mér loksins örla á því að augu manna geta aðeins opnast, það getur aðeins rifað í augasteinana. Það er þó þannig komið að meira að segja hið háa sjútvrn. og ráðherra þeirra mála leggur hér fram í frumvarpsformi efnisatriði sem auðvitað eru seinbúin viðurkenning á einu helsta vandamáli aflamarkskerfisins, sem er brottkastið. Og það er þessi litli vísir að tilraun með meðaflareglu, sem ég hef yfirleitt kallað svo, sem þar er á ferðinni og ég fagna að sjálfsögðu. Mér finnst, þó fyrr hefði verið og löngu fyrr hefði verið, að menn þori þó að reyna eitthvað, prófi, geri tilraun með einhverja reglu af þessu tagi og sjái hvernig það kemur út, og síðan mætti þá reyna að þróa það eitthvað í framhaldinu. Því að ef menn ætla áfram að styðjast við aflamarkskerfið --- sem mér virðist að flestir gefi sér orðið og fáar raddir í mikilli alvöru gera ráð fyrir því að við kæmumst yfir í annars konar takmarkanir, sóknartakmarkanir eða slíkar, nema þá að hluta til að einhverju leyti í blandaðri leið --- þá verða menn og eiga að horfast í augu við það að þessi hætta er samfara aðferðafræðinni umfram ýmsar aðrar, held ég að verði að viðurkennast og hljóti að viðurkennast, vegna þessa eðlis takmörkunarinnar að landaður sé afli sem mæli notkun manna á réttindum sínum, og reyna eitthvað af þessu tagi. Mér finnst að vísu farið hér mjög vægt í sakirnar og um lága hlutdeild að ræða en það er þó allt í áttina (Forseti hringir) og ég, herra forseti, lýk þá máli mínu af augljósum ástæðum, með því að fagna þessu þó í litlu sé.