Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 17:43:15 (1183)

2001-11-05 17:43:15# 127. lþ. 21.1 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[17:43]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir ræðu hans. Hv. þm. átti sæti í nefndinni sem falið var að endurskoða lög um stjórn fiskveiða og hann er því besta vitni um það sem þar gerðist innan dyra.

Nú er það svo að hv. þm. sagði að í staðinn fyrir að fella dóma og gefa mönnum einkunnir fyrir frammstöðu sína, þá hefðu menn miklu frekar átt að einbeita sér að því að ræða málið efnislega. Mig langar þá til þess að spyrja hv. þm.: Telur hann að hæstv. sjútvrh. hafi vikið af þeirri leið, að ræða málið efnislega?

Mig langar líka til að spyrja hv. þm. hvort hann sé þeirrar skoðunar að sá ófriður sem hæstv. sjútvrh. hefur æst til í kringum niðurstöðu nefndarinnar hafi dregið úr möguleikum til að skapa samstöðu og sátt um þetta mál hér innan dyra. Ég hjó eftir því, herra forseti, að hv. þm. sagði að bæði þingmenn stjórnarliðsins, eða a.m.k. þeir þingmenn stjórnarliðsins og þingmenn stjórnarandstöðunnar sem sæti áttu í nefndinni, hefðu starfað af fullum heilindum. Mér finnst ákaflega mikilvægt að þetta komi fram, herra forseti.

Hv. þm. á sæti í nefndinni. Hæstv. sjútvrh. sat hins vegar aldrei í nefndinni en hann hefur komið fram með svigurmæli og digur ummæli um þann tilgang sem vakti fyrir mönnum, m.a. hefur hann aftur og aftur ráðist að hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. Mér finnst það mikilvægt fyrir flokk minn og fyrir þann hv. þm. sem ég met mikils, að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson skuli með þessum hætti koma fram og staðfesta það sem við höfum haldið fram, að ummæli ráðherrans eigi ekki við rök að styðjast.

Ég ítreka síðan fyrri spurningar mínar um það hvort framganga ráðherrans hafi orðið til að draga úr líkum á sátt í þessu máli.