Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 18:08:02 (1196)

2001-11-05 18:08:02# 127. lþ. 21.1 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[18:08]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Sú umræða sem hér hefur staðið í tvo þingdaga er ákaflega athyglisverð. Hún hefur snúist að mínu viti aðallega um þrennt. Í fyrsta lagi um meint gagnsleysi kvótakerfisins. Í öðru lagi um tillögu auðlindanefndar og síðar endurskoðunarnefndar um stjórn fiskveiða. En í þriðja og minnsta lagi hefur hún snúist um frv. sem hér liggur fyrir í dag, herra forseti. Það sem er e.t.v. merkilegast er að hinn fjarstaddi sjútvrh. sneri ræðu sinni líka og að stærstum hluta upp í allt annað en frv. sem við erum að ræða hérna.

Herra forseti. Mig langar aðeins að ræða þá þrjá þætti sem umræðan hefur drepið á. Ég ætla að byrja á því að ræða umræðu manna um meint gagnsleysi kvótakerfisins. Það er eftirtektarvert að langflestir sem hér hafa stigið í stólinn úr liði stjórnarinnar hafa fyllst efasemdum í ræðu sinni um það hversu vel kvótakerfið gagnast okkur. En tveir menn aðallega hafa á umliðnum vikum og mánuðum talað þannig og beitt sér með þeim hætti að ekki er hægt annað en draga þá ályktun af verkum þeirra og orðum að þeir hafi ekki mikla trú á aflamarkskerfinu. Þessir menn, herra forseti, eru annars vegar varaformaður þingflokks framsóknarmanna, hv. þm. Hjálmar Árnason, og hins vegar hæstv. sjútvrh.

Hv. þm. Hjálmar Árnason hefur í útvarpi og reyndar líka aðspurður í ræðu sinni á föstudaginn síðasta lýst því yfir að hann telji verjanlegt að auka verulega frelsi smábáta án þess að hinn aukni afli sem mundi stafa af því leiddi til skerðingar á aflamarki annarra skipa. Hann hefur sagt sem skýringu á orðum sínum og réttlætingu að hann telji að skekkjan í fiskveiðiráðgjöfinni sé svo mikil að þetta sé heimilt. Ég get ekki dregið aðra ályktun af þessu, herra forseti, en að hv. þm. Hjálmar Árnason sé í reynd fylgjandi því að smábátar með tilteknum takmörkunum megi stunda frjálsa krókaveiði.

Hæstv. sjútvrh. greip til þess ráðs fyrr á sumri að lýsa yfir veiðifrelsi varðandi steinbít. Hann var að vísu knúinn til þess að draga það til baka. Ég get hins vegar ekki dregið aðra ályktun af þeirri ákvörðun hæstv. sjútvrh. en hann hafi þarna verið reiðubúinn til þess að fara í ákveðna tilraun sem fólst í því að heimila frjálsar veiðar á tiltekinni fisktegund. Ástæðan hlýtur að vera sú, herra forseti, að hann er líka fullur efasemda um nytsemd aflamarkskerfisins. Ég skal ekki leiða getum að því hvort það er vegna þess skipbrots sem segja má að ráðgjöfin hafi beðið á síðustu árum eða hreinlega hvort hann telji að hægt sé að stýra veiðinni með öðrum aðferðum en kvótakerfinu. Ég held hins vegar að í framhaldi af orðum hv. þm. og hæstv. sjútvrh. sé okkur heimilt að velta vöngum yfir því hvað menn ættu að gera í þessari stöðu. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að það væri í lagi að feta þá braut sem hæstv. sjútvrh. markaði með yfirlýsingu sinni um frjálsar veiðar á steinbít. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að menn ættu að leyfa sér andspænis þeirri niðurstöðu sem fiskveiðiráðgjöfin hefur leitt til, að gera tilraun. Menn ættu að gera tilraun til að leyfa frjálsar ýsuveiðar á smábátum með tilteknum takmörkunum undir ákveðinni stærð og miðað við ákveðnar veiðiaðferðir. Við ættum að sjá hvað út úr því kemur.

Eins og hér hefur verið rakið í umræðunni af fjölmörgum þingmönnum er það einfaldlega svo að það er ákaflega ólíklegt að niðurstaðan gæti orðið miklu verri en sú sem við stöndum andspænis núna. Líffræðileg rök mæla með því að slík tilraun yrði gerð á afmörkuðum stofni eins og ýsunni.

Herra forseti. Hér hafa nánast allir þingmenn stjórnarliðsins talað í þá veru að þeir séu reiðubúnir til þess að samþykkja frv. sem hér liggur fyrir af því að það er illskásti kosturinn. Það er ekki af því að þeir séu hrifnir af þessu frv. Nei, herra forseti. Það vill svo til að þeim mönnum sem hafa hér talað af hálfu stjórnarinnar tókst ekki þrátt fyrir atbeina okkar í stjórnarandstöðunni að koma í veg fyrir að ákaflega umdeild slæm lög tækju gildi nú í haust sem takmarka mjög umsvif smábátaútgerðar í landinu. Um leið gerist það að verið er að kippa stoðum undan fjölmörgum strandbyggðum víðs vegar um landið.

Herra forseti. Ég hlýt að spyrja: Hvað veldur því að hv. þm. eins og Kristinn H. Gunnarsson, Einar Oddur Kristjánsson, Einar K. Guðfinnsson, Hjálmar Árnason, Gunnar Birgisson og e.t.v. fleiri sem ég man ekki á þessari stundu, ætla sér að styðja það frv. sem hér liggur fyrir af því að það er illskásti kosturinn, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason lýsti yfir á föstudaginn? Þó er ljóst að verulegar líkur eru á því að með sameinaðri stjórnarandstöðu og atfylgi þeirra manna í stjórnarliðinu sem eru andsnúnir þeim lögum sem tóku gildi í haust um veiðar smábáta væri e.t.v. hægt að gera árangursríka tilraun til þess að hnika þessum lögum og breyta þessari stöðu. Hvað veldur því að þessir menn fylgja ekki sannfæringu sinni, fylgja ekki því ákvæði stjórnarskrárinnar að fara eftir því sem býr í brjósti þeirra en ekki flokksaganum? Hvað veldur því, herra forseti?

Á hæstv. sjútvrh., sem situr í skjóli sægreifanna sem í þessum efnum hafa öll völd í Sjálfstfl., að takast að beygja menn eins og hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, Einar Odd Kristjánsson, Einar K. Guðfinnsson, Hjálmar Árnason og Gunnar Birgisson? Herra forseti. Ég verð ákaflega hryggur ef sú verður niðurstaðan. Það vill svo til að hér á eftir er á dagskrá frv. sem hv. þm. stjórnarandstöðunnar, Guðjón Arnar Kristjánsson, Karl Valgarður Matthíasson og Árni Steinar Jóhannsson, flytja. Þar gæfist þessum þingmönnum stjórnarliðsins kostur á að láta reyna til þrautar á það hvort hægt sé að bæta aftur hag smábátaútgerðarinnar frá núverandi lausn. Allir þessir þingmenn hafa lýst miklu fylgi við það. Hvers vegna eru þeir ekki þegar á reynir reiðubúnir að gera þessa úrslitatilraun með hag umbjóðenda sinna í huga?

[18:15]

Herra forseti. Lýðræðið er merkilegur hlutur. Lýðræðið segir að fólkið í landinu eigi að hafa fulltrúa sína á löggjafarsamkundunni og þeir eigi að þrýsta fram hag umbjóðenda sinna. Endurteknar skoðanakannanir hafa sýnt að í landinu er mikið fylgi við að skella þeim lögum sem tóku gildi í haust og rétta aftur hag smábátaútgerðarinnar. Lýðræðið er hins vegar svo kynleg skepna að þessi vilji nær ekki inn í raðir stjórnarliðsins. Við vitum að stór hluti þeirra landsmanna sem fylgja stjórnarflokkunum í landinu er þeirrar skoðunar að bæta eigi hag smábátaútgerðarinnar og reisa hana aftur til þess sem hún var fyrir gildistöku þessara laga. En forustumenn þessara flokka virðast þess megnugir að taka í bóndabeygju sannfæringu þeirra ágætu hv. þm. sem eru sömu skoðunar. Það þykir mér miður.

Herra forseti. Það var hæstv. sjútvrh. sem fyrstur leiddi inn í umræðuna atburði og atburðarásina í auðlindanefnd og síðan svokallaðri kvótanefnd. Hæstv. sjútvrh. er illu heilli ekki staddur við þessa umræðu en mér er kunnugt um að hann hafði til þess gilda ástæðu. Þó ég vildi gjarnan eiga við hann orðastað um þessa hluti verð ég að sætta mig við að hann er ekki viðstaddur. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir reifaði hins vegar í ákaflega knöppu og hnitmiðuðu máli við umræðu málsins á föstudag afstöðu Samfylkingarinnar og þær ákvarðanir sem fulltrúar Samfylkingarinnar stóðu að í auðlindanefndinni og í kvótanefndinni. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur hér fyrir sitt leyti staðfest það sem menn hafa verið að segja um atburðarásina innan kvótanefndarinnar. Það hefur komið fram í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að það sem hæstv. sjútvrh. hefur verið að bera á torg er einfaldlega rangt.

Merkilegust við þátttöku hæstv. sjútvrh. í þessari umræðu voru viðbrögð hans við ræðu hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur. Þegar hv. þm. hafði lýst því hvernig málflutningur hæstv. ráðherra styðst ekki við nein rök og hafði hrakið hverja einustu staðhæfingu hans varðandi Samfylkinguna lið fyrir lið þá þrumdi hæstv. sjútvrh. eins og hnípinn fugl í sæti sínu. Hann kom ekki upp til andsvara. Það sem stóð eftir hann á þeim degi var þögn hæstv. ráðherra gagnvart málflutningi hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur.

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. hefur haldið því fram að fulltrúar Samfylkingarinnar hafi svikið samkomulag sem gert var í auðlindanefndinni og það hafi sérstaklega verið hv. þm. Jóhann Ársælsson sem hafi hlaupið frá því samkomulagi. Því var lýst vel í dag af hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, sem átti sæti í auðlindanefndinni, hvernig það var á síðustu metrunum að veiðigjaldsleiðinni svokölluðu, LÍÚ-leiðinni eins og ég kalla hana, leiðinni sem hæstv. ráðherra hefur faðmað, var þrýst inn í skýrslu auðlindanefndarinnar af tveimur nefndarmönnum. Þessa leið hefur hæstv. ráðherra gert að sinni og ásakar síðan hann fulltrúa Samfylkingarinnar, hv. þm. Jóhann Ársælsson, fyrir að hafa hlaupið frá því samkomulagi.

Herra forseti. Átti hv. þm. Jóhann Ársælsson að bera ábyrgð á hugmynd sem komið var inn vegna þrýstings tveggja manna í auðlindanefndinni, eftir að það lá alveg ljóst fyrir að meginniðurstaða auðlindanefndarinnar var á allt annan veg? Meginniðurstaða auðlindanefndarinnar var að sjálfsögðu sú, ekki aðeins varðandi fiskimiðin í hafinu heldur líka varðandi fallvötn á landi og fjarskiptarásir í loftinu, að þar sem samkeppnisforsendur væru fyrir hendi skyldi bjóða afnotarétt sameiginlegra auðlinda út. Þetta varð niðurstaðan, herra forseti.

Jafnvel sú leið sem hæstv. ráðherra hefur gert að sinni, LÍÚ-leiðin, var eins og hún birtist í skýrslu auðlindanefndar líka byggð á þeim grunni að innkalla ætti tiltekið magn aflaheimilda og bjóða út. Ég hef grun um að hæstv. sjútvrh. hafi ekki hlaupið nema léttilega á skýrslu auðlindanefndar. Í henni kemur nefnilega skýrt fram að gert er ráð fyrir því að sjávarútvegurinn greiði í fyrsta lagi ákveðið kostnaðargjald. Það vill svo til, herra forseti, að ég átti orðastað við hæstv. sjútvrh. á þeim degi sem hann var tilnefndur til núverandi embættis síns. Það var í sjónvarpsþætti. Þá lýsti hæstv. sjútvrh. þeirri skoðun sinni að sjávarútvegurinn ætti að borga kostnaðargjöld. Hver er kostnaðurinn við sjávarútveginn í dag, herra forseti? Því hefur stundum verið lýst af vísum reiknimeisturum að líklega væri hann 3% af fjárlögum. Hvað er það mikið, herra forseti? Ætli það séu ekki 6--7 milljarðar í dag? Mannvitsbrekkur stjórnarliðsins í sérfræðiliði þess hafa reiknað það út sem kostnað greinarinnar og ein af niðurstöðum auðlindanefndarinnar var að sjávarútvegurinn ætti að fara langleiðina í því að greiða sinn kostnað.

Herra forseti. Þar fyrir utan var það líka niðurstaða auðlindanefndarinnar að einnig ætti að borga sérstaklega fyrir réttinn til að nýta auðlindirnar. Þetta hefur hvergi komið fram í máli hæstv. sjútvrh. Það hefur heldur hvergi komið fram, herra forseti, að í reifun auðlindaskýrslunnar um veiðigjaldsleiðina er tekið fram sérstaklega að það eigi að auka aðgengi landsmanna að aflaheimildum og skapa sérstakt svigrúm til þess. Þar er líka sagt hvernig það eigi að gera, herra forseti. Það er sagt með beinum orðum í skýrslu auðlindanefndar að það eigi að gera með því að innkalla tiltekinn hluta aflaheimilda og setja á markað og fá m.a. þannig fyrir kostnaðargjöldunum. Þessu hefur hæstv. forsrh. ævinlega gleymt. Hann hefur aldrei sagt frá þessu. Ég get ekki dregið aðra ályktun en þá, herra forseti, að hann haldi vísvitandi fram blekkingum um hina raunverulegu niðurstöðu auðlindanefndar.

Þegar hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir lýsti atburðarásinni og hrakti málflutning hans lið fyrir lið og hæstv. ráðherra þagði undir því, þá var það auðvitað staðfesting á því að hann hefur allan tímann farið með rangt mál. Hverjir eru það sem rufu sáttina sem grunnur var lagður að í auðlindaskýrslunni? Það var hæstv. sjútvrh. Það var hægt að ná þeirri sátt innan nefndarinnar um endurskoðun fiskveiðistefnunnar, kvótanefndarinnar svokölluðu. Það hefur hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sem þar átti sæti, sagt sjálfur. Það er ekki hægt að draga aðra ályktun af máli hans en þá að það hafi verið málflutningur ráðherrans og íhlutun sem hafi leitt til þess að lausn sem lá á borðinu á síðustu dögum nefndarstarfsins náðist ekki.

Herra forseti. Ég held því líka fram að málflutningur hæstv. sjútvrh. hafi leitt til þess að sáttin sem líka fólst í skýrslu auðlindanefndarinnar náðist ekki. Hver var sú sátt, herra forseti?

Leiðirnar sem bent var á í skýrslu auðlindanefndar voru tvær. Að lokum var þeim gert jafnhátt undir höfði. Önnur var veiðigjaldsleiðin. Hin var sú að afnema gjafakvótann með fyrningarleiðinni. Liggur ekki í augum uppi, herra forseti, að þegar tvær leiðir eru settar fram og þær eru jafnstæðar í skýrslunni þá felst í því ósögð tillaga um að fara bil beggja, um að fara þær báðar?

Ég leit svo á, þegar skýrslan lá fyrir, að það væri snilldin í þessari skýrslu. Ég leit svo á að ef hæstv. sjútvrh. hefði einhver tök á fulltrúum Samfylkingarinnar eftir það starf væri það nákvæmlega að fara meðalveginn sem í því fólst, ekki síst vegna þeirrar leiðbeiningar sem kom fram í reifun skýrslunnar um veiðigjaldsleiðina, að þar er beinlínis gert ráð fyrir því að svolítill hluti aflaheimilda er innkallaður og settur á markað. Það hefði verið erfitt á þeim tíma fyrir Samfylkinguna að skirrast við að taka þátt í slíkri sátt.

Herra forseti. Það var hins vegar hæstv. sjútvrh. sem æsti til ófriðar með því að ráðast að einstökum stjórnmálaflokkum sem tóku þátt í skýrslugerðinni, ráðast að einstökum stjórnmálamönnum sem tjáðu sig um hana og tóku síðan þátt í starfi kvótanefndarinnar og með því að afflytja hina raunverulegu niðurstöðu auðlindasnefndarinnar. Það er hæstv. sjútvrh. sem ber ábyrgðina á tilraunum til þess að lemja fram leið LÍÚ. Það er hæstv. sjútvrh. sem ber ábyrgðina á því að sú sátt sem var í augsýn, sem sumum okkar fannst liggja á borðinu, bæði innan auðlindanefndarinnar og síðan innan kvótanefndarinnar, er ekki möguleg í dag. Hæstv. sjútvrh. sem ber ábyrgðina á því rjúfa þá sátt sem var í augsýn.