Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 05. nóvember 2001, kl. 18:48:52 (1200)

2001-11-05 18:48:52# 127. lþ. 21.2 fundur 191. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókabátar) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 127. lþ.

[18:48]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson gerði það mjög vel og það kom fram í máli hans að markmið frv. er að stuðla að eðlilegri og heilbrigðri sjósókn í smábátakerfinu á Íslandi. Það er nauðsynlegt að hafa þann háttinn á og forðast í lengstu lög það slys sem vofir yfir með því frv. sem sjútvrh. hefur lagt fram um sömu báta. Þetta er líka gert til að stuðla að því að ekki verði stórslys í byggðamálum landsins, til að byggðirnar lendi ekki í enn meira uppnámi en nú er. Það er frekar til þess að reyna að koma í veg fyrir það hrun sem blasti við á sínum tíma þegar stóru skipin sigldu í burtu frá mörgum plássunum.

Ég vona, herra forseti, að frv., sem ég vænti að verði vísað til sjútvn., fái vænni og einlægari umfjöllun en frv. sem ég og hv. þm. lögðum fram í vor um veiðar smábáta. Ég vona að þetta frv. komi aftur fyrir þingið í þessum sal til umræðu og afgreiðslu og að það fái jákvæða afgreiðslu vegna þess að ég veit, herra forseti, að fjöldinn allur af þingmönnum, jafnvel stjórnarliðum, er hlynntur þessu frv. Og ef þeir eru það hljóta þeir að fylgja samvisku sinni í þessu máli.