Rekstrarstaða framhaldsskólanna

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 13:48:06 (1207)

2001-11-06 13:48:06# 127. lþ. 22.94 fundur 107#B rekstrarstaða framhaldsskólanna# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[13:48]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Framhaldsskólarnir í landinu búa við óþolandi rekstrarumgjörð. Fjármununum er ráðstafað á skólana eftir svokölluðu reiknilíkani þar sem beitt er meðaltölum en lítt tekið tillit til hvers eðlis skólinn er eða það nám sem í boði er. Skólar sem reka heimavistir eða eru með umfangsmikið verknám eða breytilegan nemendafjölda á námsbrautum verða mjög hart úti í þessu reiknilíkani. Þetta líkan er fyrst og fremst sniðið að einhæfum bóknámsskólum þar sem nemendafjöldi er tiltölulega óbreyttur og brottfall þekkist ekki.

Við getum tekið nærtækt dæmi t.d. Menntaskólann í Kópavogi sem er sérskóli á sviði hótel- og matvælagreina. Reiknilíkanið þar gerir ekki ráð fyrir sérstökum matvælainnkaupum skólans umfram aðra framhaldsskóla þrátt fyrir að um hótel- og matvælaskóla sé að ræða. Reiknilíkanið gerir ráð fyrir liðlega 2 millj. kr. til matarinnkaupa meðan innkaup skólans vegna þessarar námsbrautar sinnar nemur um 20 millj. kr. Svona er þetta víða, herra forseti, hvar sem borið er niður varðandi verknám. Það er því alveg óþolandi að byggja menntakerfið upp með þessum hætti.

Það veldur mér ugg, herra forseti, að hæstv. menntmrh. skuli í ræðu sinni áðan opinbera það að hæstv. ráðherra virðist ekki gera sér grein fyrir þeim vanda sem hér er á ferðinni og er kannski það alvarlegasta í stöðu málsins.

Reiknilíkanið og stefna stjórnvalda í menntamálum mun að óbreyttu leiða til þess að framhaldsskólar úti um allt land verða að skera niður námsframboð sitt og allt verklegt nám lætur undan síga. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. menntmrh.: Mun hann beita sér fyrir því að endurskoðað og leiðrétt reiknilíkan verði lagt til grundvallar við skiptingu fjár til framhaldsskólanna þegar fjárlög næsta árs verða afgreidd nú í haust? Ég tel þetta afar brýnt og hefur komið fram í óskum bæði skólastjórafélagsins og Félags íslenskra framhaldsskóla til fjárln. að á þessu máli verði tekið þegar í stað, herra forseti.