Rekstrarstaða framhaldsskólanna

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 13:50:24 (1208)

2001-11-06 13:50:24# 127. lþ. 22.94 fundur 107#B rekstrarstaða framhaldsskólanna# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[13:50]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Málefni framhaldsskólanna eru mjög vel þekkt í fjárln. Þau hafa margsinnis komið þar til umræðu. Við höfum haft ástæðu til þess þar að fagna því mjög á umliðnum árum að einmitt greiðsluform til skólanna sé í því formi sem það er, þ.e. á hlutlægan hátt hvað varðar þetta módel. Við höfum talið það öðrum til fyrirmyndar og vonast til þess að önnur ráðuneyti gætu tekið sér það til fyrirmyndar svo sem dómsmrn. og heilbrrn.

Við vitum mjög vel að deilur eru um þetta módel og það er eðlilegt að deilur séu um það. Við vitum líka að farið hefur fram endurskoðun á því og við vitum nokkurn veginn hvar hafa komið fram rökstuddar ályktanir um að einhverjar villur kunni að vera í því. Málið er til umfjöllunar þó að það sé alls ekki komið á það stig að fjárln. sé að taka ákvarðanir í dag.

Við vitum nokkurn veginn hvernig þetta liggur. Um það er að ræða eins og kom fram í máli hæstv. menntmrh. að heildarvillan er mjög lítil. Hún er einmitt innan þeirra marka sem við erum að fjalla um og teljum viðráðanlega, 1,5--2,5% af fjárlögum hvers árs.

Hitt er svo annað mál að þó að sá rökstuðningur sem liggur fyrir um breytingu á módelinu verði allur tekinn til greina sem ég skal ekki fullyrða um hér, herra forseti, þá er ljóst að einstaka skólar, málefni einstakra skóla liggja þar langt fyrir utan. Það er sérverkefni að skoða það og athuga og hlýtur að koma til kasta menntmrn. og mun gera það. En að fordæma módelið og vilja kasta því fyrir róða er alveg skelfilega rangt vegna þess að hér erum við að feta okkur mjög til hinnar réttu áttar eins og við eigum að gera um fjárreiður opinberra fyrirtækja.