Rekstrarstaða framhaldsskólanna

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 13:52:27 (1209)

2001-11-06 13:52:27# 127. lþ. 22.94 fundur 107#B rekstrarstaða framhaldsskólanna# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[13:52]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Mörg undanfarin ár hefur reiknilíkan framhaldsskólanna verið til umræðu. Við höfum í fjárln. haust eftir haust fengið fulltrúa í menntmrn. á fund okkar þar sem þeir hafa tjáð okkur að allar líkur séu til þess að líkanið verði endurskoðað fyrir næsta fjárlagaár. Því miður hefur þetta ekki orðið raunin. Enn á ný er verið að endurskoða líkanið og enn á ný vonum við að menn nái að komast að niðurstöðu til að bæta það sem aflaga hefur farið. Það er mjög mikilvægt af þeirri einföldu ástæðu að reiknilíkanið eða aðferðafræðin sem þar er lögð til grundvallar nýtur mjög mikils trausts hjá stjórnendum framhaldsskóla. Það er afar mikilvægt að þetta traust verði áfram til staðar vegna þess að ella eru árangursstjórnunarsamningarnir sem eru við skólana í uppnámi. Skólameistarar hafa miklar og vaxandi áhyggjur af þessu vegna þess að það hefur því miður verið að halla frekar á í seinni tíð.

Nýlega hefur samstarfshópur fulltrúa frá ráðuneytinu og skólameistara skilað af sér skýrslu eða bráðabirgðaskýrslu sem við í fjárln. höfum fengið í hendur og erum að skoða. Og rétt er að taka undir það með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að fjárln. hlýtur að grandskoða þetta mál því að mikilvægi þess er slíkt að starf framhaldsskólanna, hið fjölskrúðuga og mikilvæga starf þeirra er að hluta til í húfi. Ég trúi því að hæstv. menntmrh. deili þeim áhyggjum a.m.k. með okkur sem sitjum í fjárln. og ég trúi þingheimi öllum, að hér er um svo mikilvægt starf og mikilvæga endurskoðun að ræða að við verðum að ná niðurstöðu í málið fyrir áramót.

Hér hefur verið nefndur einn tiltekinn skóli sem er líklega hvað verst staddur og er dæmigerður í raun og veru fyrir það sem hér hefur verið að gerast, þ.e. skóli sem var bóknámsskóli, tók að sér verknám og síðan hefur stöðugt hallað á. Það er líka eitt af því sem veldur okkur áhyggjum og það er að verknámið, þetta nám sem hallar hvað mest á með okkur og öðrum þjóðum, er að fara hvað verst út úr reiknilíkaninu og þess vegna, herra forseti, er enn á ný sagt að brýnt er að við náum niðurstöðu fyrir næstu áramót.