Kvikmyndalög

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 14:03:45 (1214)

2001-11-06 14:03:45# 127. lþ. 22.1 fundur 227. mál: #A kvikmyndalög# (heildarlög) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[14:03]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli í annað sinn fyrir frv. til kvikmyndalaga. Það hefur verið rætt á þingi áður og eins og það er lagt fram núna er í sjálfu sér ekki um efnislegar breytingar á frv. að ræða fyrir utan að gildistíma þess er breytt, og verði frv. að lögum er gert ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2003.

Það er langt síðan menn hófu endurskoðun laga um kvikmyndamál. Núgildandi lög um þessi efni eru frá árinu 1984 og er frv. ætlað að leysa þau lög af hólmi.

Frv. er samið á vegum menntmrn. og hefur við gerð þess verið haft samráð við framkvæmdastjóra og stjórn Kvikmyndasjóðs Íslands og félög kvikmyndagerðar á Íslandi.

Meginmarkmið frv. er að skýra stjórnsýslulega stöðu þeirra opinberu aðila hér á landi sem starfa að eflingu íslenskrar kvikmyndamenningar og varðveislu kvikmynda. Helstu breytingar og nýmæli sem í frv. felast frá núgildandi löggjöf eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lagt til að tvær stofnanir sinni þeim verkefnum sem nú heyra undir Kvikmyndasjóð Íslands, annars vegar Kvikmyndamiðstöð Íslands og hins vegar Kvikmyndasafn Íslands. Kvikmyndamiðstöð Íslands er ætlað að hafa með höndum verkefni sambærileg þeim er Kvikmyndasjóður Íslands hefur sinnt fyrir utan rekstur Kvikmyndasafns Íslands. Starfsemi Kvikmyndasjóðs hefur aukist mjög á undanförnum árum og þykir heitið Kvikmyndamiðstöð Íslands undirstrika betur margþætt hlutverk opinberra aðila varðandi stuðning við framleiðslu og dreifingu á íslenskum kvikmyndum. Nafnið Kvikmyndasjóður verður notað áfram um úthlutunarsjóð Kvikmyndamiðstöðvar til framleiðslu eða dreifingar íslenskra kvikmynda. Kvikmyndasafn Íslands sem nú heyrir undir Kvikmyndasjóð verður hins vegar sjálfstæð stofnun og á hún að sinna varðveislu íslenskra kvikmynda auk þess sem safninu er ætlað að taka við þeim kvikmyndum sem falla undir lög um skylduskil safna og varðveita þær.

Í öðru lagi er lagt til að sett verði á laggirnar kvikmyndaráð, opinberum aðilum til ráðgjafar um aðgerðir í kvikmyndamálum. Ráðið taki ekki ákvarðanir um stjórnsýsluleg eða fjárhagsleg málefni enda verði þau á ábyrgð forstöðumanna Kvikmyndamiðstöðvar og Kvikmyndasafns, á verksviði hvors um sig.

Í þriðja lagi er ákvæðum um fyrirkomulag úthlutunar framlaga til kvikmyndagerðar breytt. Forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar tekur endanlega ákvörðun um úthlutun framlaga í samræmi við ákvæði í reglugerð sem sett verður að fenginni umsögn kvikmyndaráðs. Þykir nauðsynlegt að skapa stjórnvöldum meira svigrúm en nú er til að setja úthlutunarreglur um framlög úr Kvikmyndasjóði og bregðast þannig við breytilegum þörfum kvikmyndagerðar án þess að til lagabreytinga komi í hvert sinn.

Eins og fram kemur í athugasemdum með frv. er mikilvægt að við setningu þessarar reglugerðar verði byggt á því markmiði að veita framlög til allra tegunda kvikmynda. Í henni verði kveðið á um meginskiptingu framlaga úr Kvikmyndasjóði til einstakra greina kvikmyndagerðar, þar með talið til leikinna kvikmynda, heimildamynda, stuttmynda, teiknimynda, innlendrar dagskrárgerðar fyrir sjónvarp og annarra tegunda hreyfimynda, svo sem framlög til margmiðlunarverkefna, enda falli þau undir skilgreiningu 2. mgr. 1. gr. frv. hvort sem er til undirbúnings þeirrar framleiðslu eða dreifingar.

Í fjórða lagi er, herra forseti, veitt heimild í frv. fyrir markaðsnefnd sem gegnir því hlutverki að auka atvinnu við kvikmyndgerð hér á landi. Slíkar nefndir eru starfandi í flestum Evrópulöndum og í einstökum ríkjum Bandaríkjanna. Þær hafa það hlutverk að gera viðkomandi lönd eða borgir að sögusviði og upptökustað erlendra kvikmynda, bæði í þeim tilgangi að auka atvinnu við kvikmyndagerð á viðkomandi stað og jafnframt koma landinu á framfæri við áhorfendur hvarvetna í heiminum. Nú þegar hafa ýmis íslensk fyrirtæki sérhæft sig í þjónustu við erlend kvikmyndafyrirtæki og gæti markaðsnefndin nýst þessum fyrirtækjum við frekari eflingu á þessu sviði.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að frv. verði vísað til hv. menntmn. að lokinni þessari umræðu.