Kvikmyndalög

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 14:08:21 (1215)

2001-11-06 14:08:21# 127. lþ. 22.1 fundur 227. mál: #A kvikmyndalög# (heildarlög) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[14:08]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hér kom fram að það hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir til að afgreiða þetta merka frv., og því miður hefur það einhvern veginn ekki náð fram að ganga. Ég held að það sé ekki vegna þess að um það sé neitt tiltakanlegt ósætti. Í gildi eru gömul lög eins og hér hefur komið fram. Lög um kvikmyndamál heita þau, ef ég man rétt, og eru frá 1984. Þessi lög hafa verið lengi í undirbúningi og ég vona að okkur auðnist á þessu þingi að afgreiða þau vegna þess að mér hefur skilist af aðilum sem undir þessi lög munu heyra að þeirra sé beðið með óþreyju.

Þetta frv. er unnið í afskaplega góðu samstarfi við fagaðila sem er mikið til fyrirmyndar og mætti oftar vera. Þessu frv. er skipt í ákvæði um kvikmyndamál almennt, ákvæði um Kvikmyndamiðstöð Íslands og svo lög um kvikmyndasafn sem mér finnst, eins og ég hef látið í ljósi áður í einhverjum umræðum, að hefði í rauninni átt að heyra undir safnalög sem voru samþykkt á síðasta þingi. Er það kannski helsta athugasemdin sem ég hef við frv.

Það er mikill vöxtur í kvikmyndagerð á Íslandi og miklar vonir bundnar við þessa grein. Okkur hefur gengið nokkuð vel, Íslendingum, að koma okkur á framfæri þó að auðvitað megi gera betur og ég held að það sé afskaplega nauðsynlegt að búa þessari atvinnugrein góða lagaumgjörð. Ég mun sem sagt styðja við það í hv. menntmn. að þetta frv. nái fram að ganga og megi þá verða íslenskri kvikmyndagerð til framdráttar.