Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 15:39:08 (1229)

2001-11-06 15:39:08# 127. lþ. 22.5 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[15:39]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf gott að læra af sögunni og ágætt að hafa hana bak við eyrað þegar verið er að fjalla hér um mál vegna þess að við rekum okkur á það að hún vill fara í hringi. Rétt til að víkja að búðarmönnunum sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson nefndi hér áðan. Í framhaldi af þeirri ógn sem að þeim stóð var auðvitað settur svokallaður píningsdómur sem ég veit að þingmaðurinn kannast við, sem gerði það að verkum að hér var í rauninni komið í veg fyrir þéttbýlismyndun í nokkur hundruð ár, og gerir það síðan að verkum í framhaldi að við stöndum hér í málum hvað varðar fólksflutninga og þróun byggðar sem aðrar þjóðir kláruðu kannski fyrir eitt, tvö hundruð árum.

Aðeins vegna orða hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur. Hún hefur misskilið mig ef hún skildi mig þannig að ég væri að koma hingað upp til að gagnrýna það að hér væri ekki réttindalöggjöf á ferðinni. Það er ekki svo. Ég vil hins vegar að þegar við fjöllum um löggjöf af þessu tagi séum við með augað alveg klárt á mannréttindamálum, að það sé alveg ljóst að þegar við erum að fjalla um málefni fólks sem kemur hingað til landsins til að vinna séum við tilbúin til að máta okkur sjálf í þess stakk. Værum við tilbúin til að hlíta þeim kjörum sem við erum að bjóða öðrum upp á, finnst okkur sjálfum að þarna sé verið að fara með mál eins og okkur er sæmst?

Við eigum að læra af öðrum, og ég sagði að það væru margir pyttir í þessum málum. Þau valda erfiðleikum víða eins og þau hafa fengið að þróast en við eigum ekki að hlífa okkur við því að reyna að átta okkur á því hvernig við getum gert þessa hluti vel, betur en aðrir, þannig að okkur finnist öllum af því fullur sómi.

Það var eingöngu þetta sem ég vildi setja hér inn í umræðuna og mér finnst óþarfi af hv. þm. að taka það sem gagnrýni á það frv. sem hér liggur fyrir, það er auðvitað ekkert fullkomnara en önnur frv. sem hér eru til umfjöllunar og sjálfsagt á nefndin eftir að gera á því einhverjar bætur.