Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 16:05:47 (1233)

2001-11-06 16:05:47# 127. lþ. 22.5 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[16:05]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Varðandi seinna atriðið sem hv. þm., formaður félmn., tók upp þá er út af fyrir sig alveg rétt að verkalýðshreyfingin og verkalýðsfélögin sjá yfirleitt um að koma upplýsingum á framfæri til félagsmanna sinna um kjarasamninga og réttindi þeirra að því leyti. Það má segja að það sé þá eðlilegt að það gildi jafnframt um útlendinga sem samkvæmt tilteknum reglum koma hér inn á vinnumarkaðinn og greiða gjöld.

En það væri þá ekkert að því að taka af skarið um það með einhverjum hætti hér í lögunum. Eins og skýrt kemur fram í lögunum má leggja kvaðir og skyldur á herðar íslenskum ríkisborgurum ekkert síður en erlendum, sbr. 1. gr. laganna. Það geta verið íslenskir ríkisborgarar og lögaðilar eða aðilar eins og verkalýðshreyfing, atvinnurekendur og fyrirtæki o.s.frv. Ég held að við ættum kannski að huga að því í nefndinni að breyta þessu í 1. gr. og opna það betur þannig að það sé ljóst að íslenskir aðilar, bæði ríkisborgarar, lögaðilar, félagasamtök og aðrir slíkir geti borið þarna skyldur.

Varðandi hitt atriðið, um Schengen, sem hv. þm. lýsti sig nú ekki mjög mikinn aðdánda að, m.a. vegna mikils kostnaðar, þá er það út af fyrir sig á sínum stað. Það er nú einmitt í fréttum þessa dagana að þessi vitleysa sé m.a. að setja Flugstöð Leifs Eiríkssonar endanlega á hausinn, og var þó ekki á bætandi á þeim bænum. Ég tel að við þurfum að taka þessar reglur sem þarna eru settar um atvinnuleyfin inn í samhengi þess sem ákveðið hefur verið varðandi dvalarleyfi og aðra slíka hluti sem hafa áhrif á stöðu útlendinga hér. Ég held að það muni draga mjög úr því að fólk sem hingað kemur standi í því að fá hér dvalarleyfi. Það mun frekar reyna að koma hingað sem ferðamenn vegna þess að það er mun einfaldara eins og nú er orðið í pottinn búið. Þá er dvöl þess hér bundin við þrjá mánuði og það hefur aftur áhrif á möguleika þess til að skoða stöðu sína hér, kynna sér aðstæður o.s.frv.