Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 16:08:20 (1234)

2001-11-06 16:08:20# 127. lþ. 22.5 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[16:08]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og ég sagði í stuttu andsvari mínu fyrr í dag þá tel ég efnislega að þetta frv. sé til talsvert mikilla bóta. Ég vil þó gera nánari grein fyrir sjónarmiðum mínum varðandi það að fólk eigi kost á upplýsingum þegar það kemur til landsins og að atvinnurekendur og stéttarfélög hafi þar nokkra ábyrgð. Ég hef litið svo á að ekki væri vanþörf á því að fólki væri gefinn kostur á að öðlast skilning á réttindum sínum.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vék áðan að kjarasamningum. Ég tek undir þau sjónarmið. Þar koma einnig til ýmis önnur réttindi eins og samfélagsleg réttindi manna sem koma til landsins, t.d. réttur til að leita sér lækninga og þarf að vera skýrt hvaða ábyrgð atvinnurekandinn ber í því.

Önnur félagsleg atriði koma iðulega upp þegar fólk flytur til landsins. Ég hefði talið eðlilegt að hugað yrði að því að útlendingum væri gefinn kostur á einhverri lágmarkskennslu eða fræðslu um þjóðfélagið og reynt yrði að koma því til skila, bæði á þeirra máli og eins að kenna þeim einhverja lágmarksundirstöðu í íslensku á stuttum námskeiðum.

Hér er að vísu til bóta að sett er inn ákvæði í 9. gr. um íslenskukennslu og samfélagsfræðslu og að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli veita starfsmanni með tímabundið atvinnuleyfi upplýsingar. Gott og vel. Ég tel að við hefðum átt að ganga lengra í þessu efni og gera skylt að á fyrsta mánuði dvalar í landinu yrði mönnum tryggður réttur á ákveðinni kennslu í tíu daga eða hálfan mánuð á máli sem þeir skilja og þá fengju þeir jafnframt lágmarksfræðslu um íslenskt mál.

Ég hef orðið var við það, m.a. á Vestfjörðum, að fólk hefur starfað hér árum saman án þess að þekkja réttindi sín. Vissulega hefur verið bætt þar verulega úr núna á síðustu árum en engu að síður er þetta ástand sem á ábyggilega víða við. Það er einfaldlega svo að útlendingar koma inn í fleiri störf hér á landi, ekki bara í fiskvinnslu og verksmiðjustörf heldur og í alls konar þjónustu í hinum svokallaða hreingerningargeira eða hvað á að kalla það, hjá hótelum við þrif og skúringar.

Þetta er auðvitað bara fyrsta stig þróunar sem aðrar þjóðir hafa gengið í gegnum og við fylgjum henni á fullri ferð. Mig langar til gamans að segja frá því að á Norðurlöndunum eru menn komnir miklu lengra í því að ná í vinnuafl inn í sín lönd, ekki bara í þær atvinnugreinar sem landsmenn hafa horfið frá að miklu leyti og útlendingar tekið yfir, heldur eru löndin líka farin að auglýsa eftir sérhæfðu starfsfólki.

Ég tók eftir því þegar ég var staddur í Póllandi að þar var norska ríkið að auglýsa eftir sérmenntuðum heilbrigðisstarfsmönnum, læknum og hjúkrunarkonum. Hvernig stóðu þeir að því? Jú, þeir auglýstu eftir fólki sem gæti tekist á við þessi störf í Noregi með þeim skilyrðum að það réði sig til þriggja ára og viðkomandi lærðu norsku og kynntu sér lög og reglur norsks þjóðfélags. Það hafði til þess sex mánuði á fullum launum. Þarna er að vísu verið að óska eftir sérhæfðum starfstéttum sem var orðin þörf fyrir í Noregi og Norðmenn gátu ekki annað sjálfir af einhverjum ástæðum. Þetta er auðvitað sú þróun sem er að verða í Vestur-Evrópu. Það er sífellt verið að bjóða fólki til landanna til að taka að sér fleiri og fleiri störf, jafnvel þau sem við köllum hálaunuð í okkar landi og krefjast langrar skólagöngu.

Ég held að þessi þróun muni smátt og smátt gera meira vart við sig hér á landi. Þetta gæti þróast með þessum hætti. Ég held að þjóðfélagið á Íslandi verði betra eftir því sem við tökum betur á móti útlendingum og kennum þeim meira. Ég er alveg sannfærður um það. Til þess að losna við þau vandamál sem hafa fylgt innflytjendum í öðrum löndum þá þurfum við akkúrat að standa þannig að málum að fræða fólkið og gera það fyrr hæft til að taka þátt í íslensku þjóðfélagi svo að hér komi ekki upp vandamál eins og útlendingahatur og önnur óæskileg áhrif sem við höfum heyrt af og séð.

Hér í 11. gr. er eitt atriði sem mig langar að víkja, þar sem talað er um að menn hafi dvalið ,,samfellt á Íslandi``. Ég var að reyna að átta mig á því hvaða skýring væri á bak við þetta orðalag og fletti hér upp á athugasemdum við þessa grein. Þar segir að þetta sé nýmæli:

,,Nýmæli er að gert er að skilyrði að útlendingur hafi dvalið samfellt í landinu.``

Ef á að túlka þetta eftir orðanna hljóðan þá er þetta afar stíft ákvæði. Flest það fólk sem kemur hér til starfa dvelur ekki samfellt í landinu, ef á að túlka orðin nákvæmlega þannig að það fari ekki af landi brott í þrjú ár samfellt. Ég hygg að margir þeirra útlendinga sem hér hafa komið til starfa hafi einmitt, fyrstu eitt, tvö og þrjú árin, farið í ferðir til heimalands síns í sumarfríum. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig menn túlka þetta orðalag. Ég get ekki lesið það út úr athugasemdum um 11. gr. En ef það er túlkað eftir orðanna hljóðan, að það sé algert skilyrði að fólk sé hér samfellt, þá spyr ég: Hversu lengi má þá fólk vera í eðlilegu fríi frá landinu svo að búsetan teljist samfelld? Eða þurfa menn að vera hér alla 12 mánuði hvers árs til að uppfylla þetta skilyrði? Er það túlkað þannig að eðlileg dvöl fjarri landinu, t.d. í einn eða tvo mánuði á ári, komi ekki í veg fyrir að vera þeirra hér á landi teljist samfelld dvöl? Þetta held ég að sé nauðsynlegt að skýra. Ég held að það sé beinlínis ósanngjarnt að setja þetta orðalag í lagatexta ef það þýðir það að fólk skuli vera hér samfellt í 36 mánuði án þess að fara nokkurn tíma af landi brott til þess að öðlast hið svokallaða óbundna atvinnuleyfi, atvinnuleyfi sem þýðir að menn megi dvelja hér og hafa atvinnu til framtíðar.

Þetta vildi ég minnast á en að öðru leyti sýnist mér þetta frv. til mikilla bóta. Ég tel að það mætti skerpa á því sem snýr að snöggri og vel skilgreindri fræðslu við komu til landsins þó að fólkið yrði svo síðar sjálft að leita sér kennslu í íslensku. Það er alveg rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vék að áðan, að fólk hefur dvalið í landinu við nánast ömurleg skilyrði mánuðum saman án þess að hafa fengið nokkra fræðslu um rétt sinn og kannski hefur jafnvel beinlínis verið unnið að því að það fengi ekki slíka fræðslu, því miður. Það eru sem betur fer algerar undantekningar og ber ekki að telja að slíkt sé regla eða algengt hjá íslenskum atvinnurekendum. Yfirleitt eru samskipti þeirra við útlendingana til sóma en mér finnst hins vegar að okkar þjóðfélag geti gert betur og stefna eigi að því að gera betur til að koma í veg fyrir framtíðarvandamál.