Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 16:18:25 (1235)

2001-11-06 16:18:25# 127. lþ. 22.5 fundur 204. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[16:18]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Fyrst um orðanotkun sem hv. formaður félmn. gat um í máli sínu. Ég lít svo á að það sé ekki stórvægilegt atriði. Ég vil náttúrlega taka það fram að auðvitað er þetta mál í höndum Alþingis og bráðum í höndum félmn. og hún getur að sjálfsögðu breytt frv. eða gert tillögu um að breyta frv. ef henni svo sýnist.

Þegar ég fór að velta þessu fyrir mér með tímabundið atvinnuleyfi og ótímabundið atvinnuleyfi þá fannst mér réttara að halda til haga upphaflegu orðalagi. Tímabundið atvinnuleyfi vísar bæði til þess að það er bundið við atvinnurekandann og líka við ákveðinn tíma. Ég get hins vegar alveg fallist á að þetta er ekkert fallegt mál. Ótímabundið atvinnuleyfi gæti ég alveg eins hugsað mér að kalla t.d. frambúðaratvinnuleyfi eða eitthvað þess háttar. En þarna þarf að gera einhvern greinarmun og mér fannst þetta gleggra svona. Ég mundi hins vegar ekkert tárast þó að hv. félmn. héldi sig við fyrri tillögu.

Varðandi það að atvinnurekandinn fær atvinnuleyfið en ekki starfsmaðurinn sjálfur í fyrstu lotu þá eru ákveðin rök fyrir því. Þau eru að einhver verður að bera ábyrgð á starfsmanninum. Það er ekki hægt að ætlast til þess að starfsmaðurinn komi hingað og geti í öllum tilfellum klárað sig hjálparlaust. Þetta er sett viljandi þess vegna og ekki gert til þess að niðurlægja starfsmanninn og fjarri lagi er sú túlkun sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir ýjaði að, og reyndar hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir, að eitthvert eignarhald skapaðist hjá atvinnurekandanum á starfsmanninum með þessu. Atvinnurekandinn ber ábyrgð á þessum gesti meðan hann vinnur hjá honum þangað til hann er búinn að aðlagast þjóðfélaginu með ákveðnum hætti og vonandi orðinn sjálfbjarga.

Upp hafa komið dæmi þess að atvinnurekandi hefur hætt starfsemi og farið á hausinn t.d. eða brugðist með einhverjum hætti skyldum sínum. Þá hefur Vinnumálastofnun verið mjög áfram um að aðstoða þá starfsmenn sem hafa misst vinnuna til þess að fá aðra vinnu.

Vestfirðingar hafa staðið afar vel að móttöku útlendinga og þar eru þeir fleiri en annars staðar. Á Ísafirði er fólk af 40 þjóðernum eða í kringum það að mér er sagt. Þar höfum við opnað fjölmenningarsetur sem ég vona að verði mjög til bóta og til hjálpar því fólki sem sækir okkur heim. Ég er út af fyrir sig sammála þeirri hugsun að eðlilegt sé að málefni útlendinga heyrðu undir eitt ráðuneyti. Við könnuðum það hjá dómsmrn. í aðdraganda frv. en ekki var vilji til þess hjá dómsmrn. að láta af hendi dvalarleyfin eða sleppa hendinni af þessu verkefni. Þess vegna verður þetta að vera samstarfsverkefni. Það er eðlilegt að atvinnuleyfin séu hjá félmrn. meðan Vinnumálastofnun er þar.

Um það hvernig eigi að skilja orðin samfellt í landinu, eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson minntist á, þá lít ég svo á að með samfellt í landinu sé meint að atvinnan sé fyrst og fremst stunduð á Íslandi á þessum tíma. Ég teldi það alveg fráleitt að gera þá kröfu að starfsmaður væri hér innan landsteinanna allan þennan tíma. Að sjálfsögðu verður fólkið að hafa frelsi til þess að ferðast, t.d. til síns heima í sumarleyfum eða einhverjum heimsóknum. Annað fyndist mér fráleitt. Það sem átt er við er að fólkið sé með meginhluta atvinnutekna sinna frá Íslandi. Það getur vel verið að skynsamlegt sé út af þessari ábendingu hv. þm., svo enginn velkist í vafa um það, að taka inn í nál. félmn. skýrara orðalag um þetta frekar en að beinlínis þurfi að breyta textanum.

Ég tel að við höfum rýmkað ákvæðin þarna. Varðandi ríkar sanngirnisástæður og hvort orðið ríkar á að vera þarna með eða ekki, finnst mér eðlilegt að sköpuð séu færi til þess að veita þessi leyfi fólki sem hingað er komið og t.d. námsmönnum sem kjósa að afla sér tekna. Hitt er svo annað mál að heimurinn hefur að vísu breyst á þessum síðustu tímum. Við höfum orðið vitni að því í nútímanum að illvirkjar eru á sveimi. Sem betur fer eru þeir sennilega ekki á ferli meðal okkar hér á Íslandi. Þó er ekki útilokað að svo kunni að fara að hryðjuverkamenn eða illvirkjar af einhverju tagi reyni að koma hingað, ekki til starfa kannski, heldur til að stikla hér í annarlegum tilgangi. Því er eðlilegt að hafa ákveðinn vara á sér og eðlilegt að halda uppi útlendingaeftirliti og kanna hvaða fólk er hér á ferð. En ég legg áherslu á að mjög mikilvægt er fyrir okkur að taka vel á móti því fólki sem hingað kemur og útlendingar eru orðnir mjög mikilvægir í íslensku þjóðfélagi. Í öllum sveitarfélögum á Íslandi, leyfi ég mér að halda fram, er eitthvert fólk af erlendu bergi brotið. Við þurfum að passa upp á að það sé komið eðlilega og vel fram við þetta fólk.

Ef við höfum minnsta grun um að farið sé illa með útlendinga með atvinnuleyfi, t.d. varðandi húsnæðisaðstæður eða annað því um líkt, þá höfum við kvatt til heilbrigðiseftirlit, við höfum kvatt til lögreglu til að kanna þessi atriði, við höfum haft samband við verkalýðsfélög og það er vilji okkar í ráðuneytinu að sómasamlega sé staðið að þessum málum og sem betur fer held ég að svo sé í langflestum tilfellum. En ég vil bara nota þetta tækifæri og biðja þá sem hafa einhvern grun eða vissu um að illa sé komið fram við þetta fólk, að verið sé að níðast á því í launakjörum eða að það búi við illan aðbúðnað, endilega hreint að láta vita og við munum þá skerast í málið. Við höfum reynt að hjálpa þessu fólki til að aðlagast. Við höfum styrkt þýðingar á kjarasamningum á útlendar tungur. Við höfum gefið út ágætan bækling með upplýsingum um íslenskt þjóðfélag, réttindi og skyldur. Hann hefur verið þýddur á allmörg tungumál, eitthvað á annan tug tungumála, og hann á að vera fyrirliggjandi og aðgengilegur öllu þessu fólki, vona ég. Við höfum gefið út vandaða handbók fyrir fólk sem sýslar með útlendinga. Við höfum staðið fyrir námskeiðahaldi þar sem útlendingum er kennd íslenska o.fl.

Við erum að undirbúa breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna og eitt af því sem við erum að skoða er hvort eðlilegt væri að rýmka kosningarréttinn þannig að fólk sem komið er með lögheimili hér fengi kosningarrétt til sveitarstjórna eins og Norðurlandabúar.

Ég tel að ákveðin rök séu fyrir því að ekki bara atvinnurekandinn fái atvinnuleyfið í byrjun heldur einnig að meginreglan sé sú að það sé gert áður en viðkomandi starfsmaður kemur til landsins. Það er ekki gott að hingað streymi fólk í atvinnuleit ef það fengi svo ekki vinnu og stæði uppi vegalaust. Margt af þessu fólki er ekki mjög fjáð og dýrt er að ferðast til Íslands. Ég vil hins vegar undirstrika það, og ætla að láta það verða lokaorð mín, herra forseti, að íslensku þjóðinni er fengur að útlendingum, ekki bara sem starfsmönnum til þess að halda atvinnulífinu gangandi þó að það sé mjög mikilvægt heldur einnig í menningarlegu tilliti. Ég vitna gjarnan til þess hvílíkum stakkaskiptum íslenskt tónlistarlíf hefur tekið vegna áhrifa frá útlendingum sem hingað hafa komið. Ég nefni líka að útlendingar eru farnir að gera það býsna gott í hestamennsku á Íslandi. Svona mætti lengi telja.

Okkur er fengur að þessu fólki. Ég vænti þess að frv. bæti réttindi þess og geri því dvölina ánægjulegri hjá okkur.