Efling félagslegs forvarnastarfs

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 16:50:31 (1238)

2001-11-06 16:50:31# 127. lþ. 22.6 fundur 14. mál: #A efling félagslegs forvarnastarfs# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[16:50]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ánægður með að hv. þm. finnst tillagan áhugaverð en ég átta mig ekki alveg á að innstæða sé fyrir því að halda því fram að hún sé samt að mörgu leyti undarleg. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir hvernig hv. þm. orðaði það. Í guðs bænum förum nú ekki að láta mismunandi skoðanir sem við kunnum að hafa á formi þessa máls skipta okkur upp í hópa ef við erum eftir sem áður jákvæð í garð þessa viðfangsefnis, að efla félagslegt forvarnastarf.

Það er alveg rétt að það er kannski svolítið ný hugsun í þessu að setja þetta saman undir þessu formerki, félagslegt forvarnastarf. Það er í sjálfu sér ekki fundið upp af okkur heldur er þetta hugtak sem hefur verið að byrja að þróast á vegum margra þessara aðila sem líta svo á að það sem þeir eru að gera sé að vinna félagslegt forvarnastarf, um leið auðvitað og þeir eru að gera ýmislegt annað hvort heldur það er að þjálfa fólk upp í íþróttaiðkun eða styðja við bakið á því til hollrar útiveru eða hvað það nú er.

Það er alls ekki svo að þessu átaki sé ætlað að vera til hliðar við eða ekki beinast að þeim aðilum sem einmitt nú eru starfandi. Það er nákvæmlega það sem hér er talið upp. Það má kannski segja að til að fyrirbyggja misskilning hefði átt að taka það sérstaklega fram að inni í þessu ætti að vera starf áfengis- og vímuvarnaráðs eða slíkra aðila. En ég held að það hafi bara verið svo sjálfgefið í okkar huga að það væri hluti af þessari mynd að ekki þyrfti að taka það fram.

Við erum vel að merkja að tala um átak í félagslegum forvörnum. Það stendur ekki á okkur að taka öllum tillögum fagnandi um aukin fjárframlög til þeirra sem eru starfandi að meðferðarúrræðunum og öðru slíku. Það er allt á sinum stað. Ég tel að það sé þarft að gera úttekt á þessu. Ég held að þörf sé á því. Hún á ekki að þurfa að kosta miklar fjárhæðir. En ég held að kortlagning á þessari fjölbreyttu starfsemi sé gagnlegt innlegg í þessa vinnu.