Efling félagslegs forvarnastarfs

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 16:54:06 (1240)

2001-11-06 16:54:06# 127. lþ. 22.6 fundur 14. mál: #A efling félagslegs forvarnastarfs# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[16:54]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað vill maður að peningarnir nýtist sem best. Það er ekki hugsun okkar flutningsmanna að eyða fjármunum að óþörfu í einhverjar úttektir eða áætlanagerð. Það er ekki svo. En ég held að skynsamlegt væri að fá kortlagningu á stöðunni. Margir þeirra sem við flutningsmenn ræddum við þegar við vorum að undirbúa þessa tillögu nefndu einmitt að þörf gæti verið á því að fara yfir þetta svið og draga saman á einn stað upplýsingar um það sem mismunandi aðilar eru að gera. Til eru dæmi um að ákveðið sambandsleysi sé þar á milli, að jafnvel þó að menn séu að starfa að verkefnum innan sama hverfis í sveitarfélagi sem mundu falla undir þennan hatt, félagslegar forvarnir, þá sé ekki mikið samband þar á milli. Ég gæti nefnt dæmi um félagsmiðstöð, íþróttahreyfingu og skátafélag, allt í sama hverfinu, sem ég veit að gætu vel starfað betur saman. Reyndar er ekki frá okkur komin sú hugsun í fyrstu umferð að það gæti verið góður útgangspunktur málsins að gera svona úttekt. Við setjum tillöguna þannig fram að á fyrsta árinu eða á undirbúningsári yrðu 75 millj. kr. settar í að undirbúa og hefja átakið þannig að ljóst er að við erum ekki að tala um nema tiltölulega mjög litla fjármuni sem færu í þá undrbúningsvinnu og að starta þessu upp. Síðan kæmu 200 millj. á ári í fimm ár og það yrði á hverju einasta ári metið hvernig það skilaði sér til að efla þetta starf, að sjálfsögðu í von um að það gæfi svo góða raun að það héldi síðan áfram.

Það þarf varla að taka það fram að ef árangurinn af þessu yrði góður þá mundu menn að sjálfsögðu binda vonir við að þetta héldi áfram og það er auðvitað okkar hugsun.

Þessi tillaga er ekki síst sprottin upp úr viðtölum við fjölmarga aðila sem einmitt sinna verkefnum af þessum toga í félagsmiðstöðvum og víðar. Ég er alveg sannfærður um að hv. þm. mun víða finna undirtektir við nálgun af þessu tagi ef hún leggur sig eftir því að heyra þær.