Efling félagslegs forvarnastarfs

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 16:56:29 (1241)

2001-11-06 16:56:29# 127. lþ. 22.6 fundur 14. mál: #A efling félagslegs forvarnastarfs# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[16:56]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ekki miklu við að bæta varðandi þær hugmyndir sem liggja að baki þeirri tillögu sem hér er rædd. Hv. 1. flm. tillögunnar, Steingrímur J. Sigfússon, hefur farið á greinargóðan hátt yfir það allt saman. En það sem rekur mig í ræðustól er örlítil viðbót við þetta mál því að svo vill til að í gær, mánudaginn 5. nóvember, lauk í Salnum í Kópavogi svokölluðu netþingi sem var unglingaþing umboðsmanns barna sem staðið hefur yfir um nokkurt skeið þar sem unglingar víða að af landinu hafa átt með sér samskipti um þau mál sem á þeim brenna. Þetta var sett upp í formi þings þar sem ályktanir voru kynntar og samþykktar. Í gær var haldinn lokafundur þessa netþings, ályktanirnar þar með lagðar fram og greidd voru um þær atkvæði. Til gamans inn í þessa umræðu og til gagns fyrir nefndina sem kemur til með að fjalla um þetta mál langar mig til að geta í nokkru örfárra þeirra ályktana sem unglingarnir samþykktu á netþinginu sínu. Þarna voru ályktanir af ýmsum toga, t.d. ályktanir um skólamál, félagslíf, mannréttindi og um heimsmálin. Unglingarnir komu víða við og allt voru þetta mjög athyglisverðar umræður og ályktanir sem hér voru á ferðinni.

Þær ályktanir unglinganna sem mér finnst eiga sérstaklega vel við, herra forseti, þegar við ræðum félagslegt forvarnastarf sem lið í aðgerðum til að berjast gegn notkun ávana- og fíkniefna og til þess að þroska félagsvitund og bæta andlegt og líkamlegt heilbrigði ungs fólks, fjalla um ofbeldi og vímuefni. Mig langar til að fá að hlaupa yfir þær, með leyfi forseta. Fyrsta ályktun unglinganna um ofbeldi og vímuefni hljóðar svo:

,,NetÞing 2001 telur mikilvægt að trúnaðarmaður nemenda sé til staðar í framhaldsskólum, sem hægt er að leita til þegar upp koma vandamál.``

Rökin með ályktuninni eru eftirfarandi:

,,Gott er að geta leitað til hlutlauss aðila þegar vandamál koma upp og ekki eru allir í þeirri aðstöðu að fá hjálp heiman frá. Mörg vandamál þjaka unglinga, t.d. eiturlyfjaneysla, ofbeldi og heimiliserjur. Vegna þessa teljum við að trúnaðarmaðurinn eigi að vera fagmenntaður einstaklingur og til staðar í öllum framhaldsskólum.``

Önnur ályktunin um ofbeldi og vímuefni hljóðar svo:

,,NetÞing 2001 leggur til að jafningjafræðsla í vímuefnavörnum innan framhaldsskóla verði sett inn í lífsleiknis\-áfanga í námsskrá.``

Og rökin:

,,Við teljum að ungt fólk sem hefur lent í viðjum vímunnar hafi meiri áhrif sem forvörn en t.d. fræðslufundur með lögreglunni. Þegar aðili kemur í eigin mynd og segir sína sögu og við sjáum hvernig eiturlyfjanotkun hefur farið með hann eru mun meiri líkur á að við hlustum af meiri áhuga og hugsum okkar gang. Þarna fáum við ískaldan sannleikann beint í andlitið eins og vatnsgusu.``

Þriðja og síðasta ályktunin frá unglingum á netþingi um ofbeldi og vímuefni er svohljóðandi:

,,NetÞing 2001 leggur til að opnuð verði nokkur hús fyrir heimilislausa, bæði á höfuðborgarsvæðinu sem og úti á landsbyggðinni til að veita þeim sem ekki hafa önnur úrræði, húsaskjól og mat.``

Og rökin eru þessi:

,,Við teljum að þetta leiði til fækkunar á innbrotum sem og ofbeldi sem á sér stað í þjóðfélaginu. Við vitum það mætavel að það mun alltaf vera til fólk sem hefur ekki í nein hús að venda og teljum það skyldu okkar að loka ekki augunum fyrir þeirri staðreynd að þarna úti er fólk sem býr á götunni.``

Það er alveg ljóst af þessum ályktunum og umræðum sem áttu sér stað meðal ungs fólks á netþingi að á þeim brenna ýmis mál sem gætu bætt og aukið við það forvarnastarf sem félagsmiðstöðvarnar og aðrir þeir aðilar sem sinna slíkum málum sinna í dag. Það er afskaplega mikilvægt, ef af samþykki þessarar þáltill. verður, að gögn af því tagi sem þetta netþing hefur skilað séu tekin með í umfjöllunina því að hér er efnismikið mál þar sem fjallað er um hugmyndir ungs fólks sjálfs í þessu tilliti. Ég er alveg sannfærð um að ályktanir og niðurstöður þessa netþings koma til með að geta aukið við vægi og hugmyndir í þeirri vinnu sem þáltill. gerir ráð fyrir að fari fram.

Um athugasemdir hv. þm. Soffíu Gísladóttur við málið vil ég einungis segja að ekki er verið að kasta neinni rýrð á nokkurt af því forvarnastarfi sem unnið er í dag. Allt er það hið ágætasta starf og í greinargerðinni er því hælt. Hins vegar er alltaf þörf á því að skoða hlutina í stóru samhengi. Þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé að gera könnun af því tagi sem hér er talað um. Fyrir t.d. fólk af okkar sauðahúsi sem situr hér í þingsölum dag út og dag inn og reynir að véla um líf og lög sem snerta manneskjur í þjóðfélagi okkar, skiptir verulegu máli að fá almennilega heildarsýn til þess að vita hvar hægt er að beita aðgerðum til þess að betrumbæta þjónustuna og auka möguleika ungs fólks og okkar sjálfra á bættu umhverfi í þessu tilliti. Það er full ástæða til að vekja athygli á því að hér er verið að tala um átak í fimm ár til að byrja með og þetta fé á að fara í framkvæmd átaksins, ekki bara í þessa könnun heldur til að ýta því í framkvæmd sem þessi könnun kemur til með að leiða í ljós að þurfi að gera.

Herra forseti. Það er samdóma álit allra þeirra sem vinna að forvörnum að þær séu öflugasta tækið sem við getum beitt í þágu unglinganna okkar til að reyna að koma í veg fyrir að þeir lendi á glapstigum eða verði fótaskortur. Oft eru þetta aðgerðir sem ekki þurfa að kosta svo mikið fé en stuðla að virkilega fyrirbyggjandi starfi, gera mannlífið mun auðugra og gefa ungu fólki öflug tækifæri til sjálfshjálpar.