Efling félagslegs forvarnastarfs

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 17:16:32 (1244)

2001-11-06 17:16:32# 127. lþ. 22.6 fundur 14. mál: #A efling félagslegs forvarnastarfs# þál., SÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[17:16]

Stefanía Óskarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tel, eins og þeir sem hér hafa nú þegar tekið til máls, mjög brýnt að efla allt forvarnastarf á Íslandi. Við stöndum frammi fyrir miklum vanda þegar kemur að misnotkun á vímuefnum og áfengi og vissulega þarf að gera gangskör að því að reyna að taka á þeim vanda.

Ég sakna þess þó í þeirri þáltill. sem hér er til umfjöllunar að ekki er minnst á mikilvægi foreldra, en ég tel að einkar brýnt sé að virkja foreldra með einhverjum hætti í þetta starf. Ég býst við að það hafi ekki verið vegna þess að flutningsmenn telji að foreldrar skipti ekki miklu máli heldur hafi það einfaldlega gleymst. En ég vil við umræðu þáltill. og í framhaldinu að fólk velti því fyrir sér með hvaða hætti ábyrgðin liggur hjá foreldrum, ekki bara einstaka foreldrum heldur foreldrum öllum í samstarfi, því að ég held að það hafi sýnt sig og rannsóknir hafi m.a. sýnt fram á það að samstaða foreldra skipti afar miklu máli og samábyrgð foreldra, þ.e. að við berum saman ábyrgð á öllum börnum.

Ég vek í framhaldi af þessu athygli á því að nú þegar liggja fyrir margvíslegar rannsóknir á bæði vímuefnaneyslu unglinga og forvarnastarfi og bendi á að nú þegar verjum við um 1 milljarði til meðferðar ungmenna og annarra sem hafa misnotað áfengi og vímuefni, en um 100 millj. til forvarna. Ég tel að brýnt sé að við breytum hlutföllunum þarna að einhverju leyti þannig að forvarnastarfið fái meira vægi.