Félagsleg aðstoð

Þriðjudaginn 06. nóvember 2001, kl. 18:01:38 (1250)

2001-11-06 18:01:38# 127. lþ. 22.7 fundur 23. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunargreiðslur) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 127. lþ.

[18:01]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er verið að leggja fram frv. til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, með síðari breytingum. Verið er að ræða um umönnunarbætur til foreldra þeirra barna og unglinga sem þjást af alkóhólisma, eins og kallaður er, áfengissýki eða fíkniefnanotkun og eru háð henni.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hvernig áfengissýkin og slík veikindi hjá börnum eða unglingum, ungu fólki er betra að segja, fara með heimilin og foreldrana. Margir foreldrar eru kvíðafullir vegna slíks ástands sem er á börnum þeirra og unglingum. Óvissan og kvíðinn sem fylgir því þegar einhver á heimilinu er í neyslu er gífurlega mikill. Það fer allt úr jafnvægi og þetta raskar eðlilegu lífi fjölskyldunnar.

Frumvarpið er í raun og veru lagt fram til þess að gera foreldra færari um að hjálpa börnum sínum til að komast út úr fangelsi alkóhólismans og er ætlað til þess að meðan börnin er í meðferð og meðan verið er að vinna að því að koma þeim til heilbrigðs lífs, þá njóti foreldrarnir þessa stuðnings.

Hér er náttúrlega, herra forseti, um margfaldan ábata að ræða, ekki einungis fyrir börnin eða foreldrana heldur líka fyrir samfélagið allt. Við vitum alveg hversu kostnaðarsamt það er fyrir samfélagið þegar unglingar eru í áfengis- og vímuefnaneyslu og eru í óreiðu og vitleysu. Við sjáum í fréttum margoft á hverju ári hvað af því hlýst, bæði í tengslum við útihátíðir og alls konar aðrar samkomur sem hafa leitt af sér mikið böl og vandræði í mörgum tilvikum.

Í umræðunni hefur komið fram að alkóhólismi er sjúkdómur og þegar ég tala um alkóhólisma er ég líka að tala um fíkniefnaneyslu. Hún fellur undir þetta hugtak vegna þess að sjúkdómseinkennin eru í raun og veru hin sömu samkvæmt þeim skilgreiningum sem fjalla um alkóhólisma. Þessi sjúkdómur er sálrænn og hann er náttúrlega líkamlegur. Við sjáum hvernig áfengissýki virkar á líkamann, hvers konar niðurbrot verður í starfsemi líkamans og þarf ekki annað en nefna orðið timburmenn í því sambandi eins og margir þekkja. Þetta er sálræns eðlis og einnig félagslegs eðlis. Við sjáum í mörgum tilvikum hvernig heimili og jafnvel nánasta umhverfi þeirra sem eru í áfengissýki fer að dansa með hinum veika, að vera meðvirkur eins og sagt er. Í umsögn um frv. var m.a. mælt á móti þessu á þeirri forsendu að foreldrar væru meðvirkir og þess vegna, eins og fram hefur komið hjá hv. flm., Margréti Frímannsdóttur og Ástu R. Jóhannesdóttur, er búið að bæta þetta með því að taka inn í umsögn heimilislæknis, félagsráðgjafa og meðferðarfulltrúa.

Full þörf er á því að styðja við bakið á foreldrum og forráðamönnum ungmenna sem búa við slíkt böl til að þeir megi eiga auðveldara með að hjálpa börnum sínum til að komast út úr því fangelsi eins og ég sagði áðan. Aldrei er of mikið gert af því að benda á hinar alvarlegu afleiðingar alkóhólismans og aldrei er of mikið gert af því heldur að ræða um gildi forvarna. Því meir sem rætt er um þetta, því meiri athygli vekur það og fólk fer að hugsa meira um hversu nauðsynlegt er að auka forvarnir og að vekja unglinga til umhugsunar um gildi lífsins og hvað það er sem skiptir máli í tilverunni.

Þegar talað er um heilbrigðisáætlanir og annað er alltaf verið að miða og stuðla að því að gera lífið heilbrigt og gott. Einn stærsti þátturinn í því er að fólk finni að það lifi í samfélagi þar sem gott er að vera. Einn liður í því er náttúrlega að styðja við bakið á því fólki sem er að berjast við áðurnefnd vandamál og sérstaklega foreldra þessara ungmenna og taka virkilega mark á því að þetta er þjáning og þetta eru erfiðleikar og mikil barátta er hjá þessu fólki sem við eigum að leggja lið til að því líði betur, til að börnunum líði betur og til að samfélagið verði betra.