Starfsskilyrði háskóla

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 13:59:18 (1262)

2001-11-07 13:59:18# 127. lþ. 23.93 fundur 110#B starfsskilyrði háskóla# (umræður utan dagskrár), KF
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 127. lþ.

[13:59]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Umræða um starfsskilyrði háskóla kemur til af ýmsum ástæðum, m.a. hafa háskólastúdentar sett sig upp á móti því að innritunargjöld hækki. Háskólar eiga í samkeppni um nemendur og kennara. Háskóli Íslands sinnir mun fleiri greinum en aðrir skólar á háskólastigi hér á landi, líka greinum sem fáir nemendur sækjast eftir. Má nefna Norðurlandamálin en það hefur verið metnaðarmál að kennslu í þeim sé sinnt. Háskóli Íslands hefur þannig ýmsar skyldur sem kosta peninga en nauðsynlegt er að geta sinnt vel, fengið hæfa kennara og greitt þeim sómasamleg laun.

Mikilvægi háskóla í nútímasamfélagi dylst engum. Menntun er vaxandi þáttur í efnahagslegri afkomu þjóða og sú auðlind sem aldrei þrýtur sé framsýnt að henni staðið. Ungt fólk á Ísland hefur aðgang að háskólum í öðrum Evrópulöndum og því er afar mikilvægt að háskólar hér á landi séu samkeppnisfærir við háskóla annars staðar, bæði hvað varðar kostnað og námsframboð. Og þótt útilokað sé fyrir litla þjóð að sigra í slíkri samkeppni skiptir öllu að því sé vel sinnt sem til boða er.

Nýjar kenningar fræðimanna líta dagsins ljós og nefndi ráðherra ráðstefnu sem nýverið var haldin um fjármögnun háskólastigsins. Þar vakti Ólafur Proppé athygli á kenningum breska hagfræðingsins Nicholas Barrs sem hefur komist að þeirri niðurstöðu að ríkisháskólar ættu að taka upp skólagjöld og að námslánakerfi þyrfti að standa undir sér. Í kenningum hans felst m.a. að auðvelda þurfi aðgengi að háskólamenntun, ekki síst fyrir minnihlutahópa, og hins vegar að auka gæði háskólamenntunar. Barr bendir í fyrsta lagi á að skólagjöld geti verið sveigjanleg, í öðru lagi að námslánakerfið verði að vera vel skipulagt og í þriðja lagi þurfi jákvæða mismunun til að ná til sem flestra nemenda.

Án efa eru kenningar þessa fræðimanns enginn endanlegur sannleikur en þær sýna þó fram á að innritunargjöld, ásamt sveigjanlegu lánakerfi, geta, sé rétt að staðið, gert nám við háskóla aðgengilegra en nú er. Mér finnast þessi nýju viðhorf áhugaverð og tímabært að umræða um þau sé hafin hér á landi.