Starfsskilyrði háskóla

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:01:30 (1263)

2001-11-07 14:01:30# 127. lþ. 23.93 fundur 110#B starfsskilyrði háskóla# (umræður utan dagskrár), Flm. EMS
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 127. lþ.

[14:01]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ég fagna því að umræðan hefur að mestu leyti haldið sig við hin vitræna þátt málsins, en þó vék hæstv. menntmrh. sér undan því, herra forseti, að lýsa framtíðarsýn sinni til málsins. Ég vona að hæstv. ráðherra noti seinni ræðu sína til að fjalla örlítið um það.

Spurningin vaknar hins vegar um það, sérstaklega eftir ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar, hvort enn sé ólokið umræðu í þingflokki Framsfl. um hækkun innritunargjalda, en í blaðaviðtali fyrir nokkru tilkynni hv. þm. sem þá var starfandi þingflokksformaður að þeirri umræðu væri ekki lokið og eins og hv. þm. sagði, það segir í raun allt sem segja þarf.

Herra forseti. Það er margt sem kemur upp í hugann eftir þessa umræðu. Hæstv. menntmrh. sagði að fjárlagafrv. boðaði það ekki að verið væri að taka upp skólagjöld. Ég sagði í fyrri ræðu minni að ekki hefði staðið á viðbrögðum við þeirri stefnu sem ég var að lýsa.

Herra forseti. Í Morgunblaðinu fyrir stuttu síðan sagði Páll Sigurðsson, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands, m.a. í grein sinni, með leyfi forseta:

,,Krefjast verður skýrra og afdráttarlausra svara frá stjórnmálamönnum um hver afstaða þeirra sé til fjármögnunar háskólans í fyrirsjáanlegri framtíð og hvað þeir séu í reynd tilbúnir að leggja af mörkum til úrbóta. Verði niðurstaðan sú, að þeir, sem ríkisfjármálum ráða, treysti sér ekki til að fjármagna Háskólann þannig að til sóma sé, verður ákvarðanatöku um heimild til töku skólagjalda umfram ríkisframlag og aðrar mögulegar tekjur hins vegar ekki lengur skotið á frest.``

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að slíku sé svarað. Hæstv. menntmrh. verður að tala skýrt. Er hann að boða skólagjöld í ríkisháskólum á næstu árum eða ekki og hvaða leiðir vill hæstv. ráðherra fara til þess að tryggja samkeppnisstöðu ríkisháskólanna í því kerfi sem við búum við í dag?