Myntbandalag Evrópu og upptaka evru

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:06:46 (1265)

2001-11-07 14:06:46# 127. lþ. 24.1 fundur 195. mál: #A Myntbandalag Evrópu og upptaka evru# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[14:06]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Samfylkingin hefur að undanförnu beint spurningum til hæstv. utanrrh. hér á Alþingi um áhrif þróunarinnar í Evrópu á hagsmuni okkar Íslendinga, um stækkun Evrópusambandsins, um möguleikana á endurskoðun EES-samningsins og um kynningu hérlendis á upptöku evru í viðskiptalöndum okkar. Nú inni ég hæstv. utanrrh. eftir skoðun hans á því hvaða áhrif myntsambandið og upptaka evrunnar geti haft á efnahags- og viðskiptalíf okkar og hagsmuni neytenda, t.d. varðandi vexti og fjármagnskostnað.

Fyrir skömmu setti Viðskiptablaðið fram þau sjónarmið að mjög erfitt yrði fyrir Ísland ef Bretar, Danir og Svíar mundu ákveða upptöku evrunnar. Þá mundu 60% af utanríkisviðskiptum okkar verða við evrulönd en þau eru í dag liðlega 30% við þau lönd sem þegar hafa ákveðið aðild að myntsambandinu.

Mikil umræða fer fram um upptöku evrunnar í þessum löndum og virðist sem andstaða við myntsambandið hafi minnkað. Þeir kostir sem nefndir eru hérlendis í umræðuna úti í samfélaginu eru Evrópusambandsaðild og upptaka evru, tenging krónu við evruna, sérstakir samningar við seðlabanka Evrópu eða einhliða binding krónu við evru.

Nýverið kom sú skoðun fram hjá tveimur prófessorum við Háskóla Íslands að gera ætti samning við seðlabanka Evrópu um tvíhliða tengingu krónu og evru en hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir ýtti þessum möguleika út af borðinu í ræðu sinni á ráðstefnu um evruna fyrir um það bil viku.

Í Morgunblaðinu í dag er svo greint frá ræðu forsrh. á fundi Bresk-íslenska verslunarráðsins í London. Forsrh. telur ekki rök fyrir því að aðild að evrunni samræmist efnahagslegum hagsmunum Íslands.

Allar líkur eru á því í dag að Ísland muni standa utan evrulandanna. Þá ber okkur að skoða hvaða áhrif það hefur hérlendis. Hvað með vexti og fjármagnskostnað heimila? Verður staða okkar verri en annarra landa í Evrópu? Hvernig er hægt að bregðast við breytingum sem kunna að verða? Atvinnurekendur, hagfræðingar og Samtök iðnaðarins virðast telja að taka ætti upp evru á Íslandi sem væntanlega er ekki unnt án aðildar að Evrópusambandinu. Helstu þættir sem horft er til í atvinnulífinu er minni viðskiptakostnaður, minni gengisáhætta, vaxtamunur sem annars yrði milli Íslands og evrusvæða og mismunur sem menn óttast að verði á samkeppnisstöðu fyrirtækja í Evrópu.

En hver er skoðun hæstv. utanrrh.? Hver telur hann að verði áhrif upptöku evru um áramót gagnvart íslenskum hagsmunum? Hvað ef Bretar, Danir og Svíar gerast aðilar? Mun það hafa afdrifarík áhrif fyrir okkur?