Myntbandalag Evrópu og upptaka evru

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:10:05 (1266)

2001-11-07 14:10:05# 127. lþ. 24.1 fundur 195. mál: #A Myntbandalag Evrópu og upptaka evru# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[14:10]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Myntbandalag Evrópu hefur orðið að veruleika og núna um áramótin munu evruseðlar fara í umferð um stóran hluta Evrópu. Ég tel að þessi atburður leiði til vatnaskila í þróun Evrópusambandsins og kunni að hafa veruleg og langtímaáhrif á efnahag landanna innan þessa svæðis.

Markmið ESB, með stofnun eins myntsvæðis, er að gera innri markað ESB skilvirkari, minnka fjármagnskostnað með því að útrýma gengisáhættu innan svæðisins og efla viðskiptalífið. Fyrir neytendur á þessu svæði eru kostirnir augljósir. Vextir koma væntanlega til með að lækka og auðveldara verður að gera samanburð á verðlagi í löndum innan svæðisins sem væntanlega leiðir til öflugri samkeppni til hagsbóta fyrir neytendur.

Hvað varðar áhrif hér á landi ber að hafa í huga að þrátt fyrir að megnið af viðskiptum Íslands sé við ESB-lönd eða um 60%, er hlutfall landa innan evrusvæðisins töluvert minna þar sem mikilvæg viðskiptalönd okkar standa enn þá utan þessa svæðis, þ.e. Svíþjóð, Danmörk og Bretland. Líklegt er hins vegar að þessi þrjú lönd gangi í þennan hóp í framtíðinni og þá verða áhrifin augljóslega meiri.

Það er ljóst að aukinn hagvöxtur í ESB, sem er aðalviðskiptasvæði okkar, hlýtur að koma okkur til góða. Auk þess má búast við því að viðskiptakostnaður í utanríkis- og gjaldeyrisviðskiptum minnki að einhverju leyti. En þó að við högnumst hugsanlega óbeint af aukinni velgengni ESB að þessu leyti er rétt að gera ráð fyrir að samkeppnisstaða fyrirtækja okkar verði lakari en meðal samkeppnisaðila okkar innan ESB.

Staðhæfa má að ef evran verður öflugur og stöðugur gjaldmiðill sem tekinn verður upp hjá öllum núverandi ESB-ríkjum verði a.m.k. ekki auðveldara að tryggja stöðugt gengi íslensku krónunnar. Vaxtamunur milli okkar og ESB gæti aukist enn frekar en er í dag. Áhrif hárra vaxta á samkeppnisstöðu fyrirtækja okkar hefur verið til umræðu að undanförnu. Þessi vaxtamunur hefur áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja í samanburði við samkeppnisaðila innan ESB. Þá er augljóst að þessi vaxtamunur mun einnig hafa áhrif á neytendur.

Á hitt ber að líta að þróun annarra gjaldmiðla skiptir okkur einnig grundvallarmáli. Þar á ég bæði við gjaldmiðla eins og dollara og jen. Þá hefur ríkisstjórnin undanfarin ár gripið til aðgerða til að mæta þessum áhrifum með því m.a. að bæta starfsskilyrði íslenskra fyrirtækja, t.d. á sviði skattamála nú síðast. Þeirri stefnu verður haldið áfram. Einnig tel ég óhjákvæmilegt að við fylgjumst grannt með því hvaða áhrif evran hefur á Ísland með það að markmiði að skapa íslensku atvinnulífi möguleika á að standa jafnfætis í samkeppni við önnur hagkerfi innan EES-svæðisins. Þetta gildir sérstaklega ef aukning verður á hlutfallslegu vægi evrusvæðisins í utanríkisviðskiptum Íslands. Stöðugt þarf að meta kosti og galla þess fyrir Ísland að standa utan þessa myntbandalags.